Máli hinna í úraráninu ekki lokið

Lögreglumenn ræða við starfsfólk úraverslunar Michelsen.
Lögreglumenn ræða við starfsfólk úraverslunar Michelsen. Júlíus Sigurjónsson

Þó svo aðeins hafi verið réttað yfir einum manni af fjórum sem tengjast úraráninu í Michelsen úrsmiðum 17. október sl. er ekki þar með sagt að máli hinna sé lokið. Í vinnslu er réttarbeiðni um að Pólverjar taki yfir saksóknina.

Eins og kom fram á mbl.is í gær fór fram aðalmeðferð yfir einum af fjórum úraræningjum sem komu hingað til lands gagngert til að brjóta af sér. Hinir þrír komust úr landi og þó svo þeir hafi verið handteknir í Póllandi var þeim fljótt sleppt að nýju.

Pólverjar framselja ekki eigin ríkisborgara á grundvelli Evrópuráðssamnings um framsal, ekki frekar en Íslendingar, og því er óskað eftir að þeir yfirtaki saksóknina.

Alþjóðlegir samningar eru í gildi sem skylda Pólverja til að rétta yfir mönnunum vegna glæpa þeirra hér á landi, og má þykja líklegt að framburður Marcins Tomasz Lechs ráði þar miklu um, en hann játaði sök í málinu og skýrði ítarlega frá atvikum í gær.

Frá blaðamannafundi lögreglunnar þar sem þýfið úr Michelsen-ráninu var opinberað.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar þar sem þýfið úr Michelsen-ráninu var opinberað. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert