Pétur Maack, sálfræðingur á Akureyri, hefur kært Snorra Óskarsson, kennara í Brekkuskóla á Akureyri, til lögreglu.
Þetta segist Pétur gera vegna ummæla Snorra á bloggsíðu sinni. Óvissa virðist fyrir hendi hvar mörk tjáningarfrelsis liggi og þess vegna kæri hann. Þetta kemur fram í grein sem Pétur skrifar í vikublaðið Akureyri í dag.
Hann skrifar að undanfarið hafi ýmsir málsmetandi menn tekið upp hanskann fyrir Snorra Óskarsson, kennara og predikara, eftir að Akureyrarbær sendi hann í leyfi. Skólayfirvöld á Akureyri hafa verið sökuð um gerræði, skoðanakúgun og jafnvel brot á stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi Snorra.
Tjáningarfrelsið sé ein af grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. En tjáningarfrelsið sé ekki óskert. „Mér er t.d. óheimilt að tjá mig opinberlega um málefni sjúklinga minna og sambærilegar skorður við tjáningarfrelsið eru fjölmargar. Að sama skapi má ætla að sá sem tekið hefur að sér kennslu í grunnskóla hafi framselt rétt sinn til að tjá skoðanir sem ganga jafn augljóslega gegn hagsmunum hluta nemendahópsins og bloggskrif Snorra gera,“ segir Pétur í vikublaðinu Akureyri sem kom út í dag.