Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hún hefði rætt það óformlega við stjórnarmenn Orkuveitu Reykjavíkur að Perlan yrði nýtt undir Náttúruminjasafn Íslands, verði ekki af sölu hennar. Hún segir Perluna áhugaverðan kost fyrir safn af því tagi.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði ráðherra út í húsnæðismál safnsins. Hún benti meðal annars á Perluna og sagði aðgengi þar gott, auk þess sem hægt væri að tengja staðsetninguna við náttúruna.
Katrín sagðist hafa sent bréf til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um húsnæðismál Náttúruminjasafnsins og samráðs sem þarf að hafa í þeim efnum. Hún sagði margt mæla með því að Perlan yrði fyrir valinu. Hins vegar verði að hafa í huga, að Perlan sé í söluferli, og að málið hafi ekki verið skoðað í þaula.