Drög að reglum um samskipti leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarfélög voru lögð fyrir fræðsluráð Hafnarfjarðar fyrr í vikunni. Drögin eru samljóma reglum sem samþykktar voru í Reykjavík, og segir í þeim að trúarleg innræting og boðun tiltekinna lífsskoðana eigi ekki heima í skólum Hafnarfjarðar.
Í greinargerð með reglunum segir, að það eigi að vera á hendi foreldra að ala börn sín upp í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa. „Um það munu starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar standa vörð samkvæmt Jafnréttisstefnu Hafnarfjarðar og þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.“
Taka ber fram að reglurnar kunna að breytast í meðförum fræðslunefndar og síðar bæjarráðs Hafnarfjarðar. Verði drögin samþykkt orðrétt er ljóst að trúar- og lífsskoðunarfélög fá ekki að stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla bæjarins á skólatíma. „Þetta á við um allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni.“ Tekið er fram að með boðandi efni sé meðal annars átt við tákngripi og fjölfölduð trúarrit.
Þá segir að þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir, að nemendur fylgist með en séu ekki ætlaðir þátttakendur í helgisiðum eða athöfnum.
Í greinargerðinni með reglunum segir að til grundvallar þeim liggi sá vilji, að tryggja rétt barna til þátttöku í skólastarfi óháð þeirri trúar- og lífsskoðun sem þau alast upp við.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður fræðsluráðs bæjarins, sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku, að málið hafi verið tekið upp í Hafnarfirði þegar reglurnar komu til umræðu í Reykjavík. „Þetta er mál sem er nauðsynlegt að skoða. Við fáum þó nokkuð af ábendingum frá foreldrum sem finnst óþægilegt að það sé ekki skýr umgjörð utan um aðkomu trú- og lífsskoðunarfélaga að skólastarfi,“ sagði Guðrún.