Stjórn Ferðafélags Íslands íhugar að loka öllum skálum félagsins yfir vetrartímann vegna slæmrar umgengni í þeim. Um liðna helgi voru þrír hópar í skála Ferðafélagsins í Landmannalaugum og var lítill svefnfriður í skálanum vegna skrílsláta eins hópsins.
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ, segir að í dag séu allir skálar félagsins opnir og bæði félagsmenn FÍ og aðrir geta komið og fengið lykla að skálum á skrifstofu FÍ yfir vetrartímann þegar engir skálaverðir eru í þeim. Um síðustu helgi voru þrír hópar í skálanum í Landmannalaugum: göngumenn, jeppamenn og sleðamenn.
Stolið úr farangri
Gönguhópurinn varð fyrir því að stolið var úr farangri hans þegar hann var í gönguferð um helgina. Farangur hópsins varð eftir í skálanum á meðan farið var í gönguna og þegar hópurinn kom til baka sást að leitað hafði verið í farangri hópsins og stolið gps-tæki úr bakpoka eins göngumannanna.
Leita væntanlega til lögreglu
Að sögn Páls er gönguhópurinn að íhuga hvað hann eigi að gera og fara væntanlega með málið til lögreglu og kæra þjófnaðinn. „Við erum að hvetja þau til þess því okkur þykir afar miður að slík mál komi upp í okkar skálum,“ segir Páll.
Einn hópurinn í skálanum í Landmannalaugum var á fylleríi langt fram eftir nóttu aðfararnótt laugardags og mikil skrílslæti í hópnum. Að sögn Páls virti hópurinn að vettugi skálareglur Ferðafélagsins sem gera ráð fyrir að ró sé í skálum frá miðnætti til sjö um morgun.
Gönguhópurinn sendi stjórn Ferðafélagsins bréf þar sem ástandinu í skálanum er lýst og fundaði stjórn FÍ um málið sl. þriðjudag. „Við fordæmum svona framkomu,“ segir Páll.
Kamínu stolið úr skála FÍ við Hagavatn
Hann segir að umgengni ferðamanna sé sífellt að batna á hálendinu en svo séu alltaf svartir sauðir inn á milli sem eyðileggi fyrir öðrum. „Nú er tvennt sem kemur til greina hjá okkur. Að loka skálum alfarið yfir vetrartímann þegar engir skálaverðir eru á svæðinu eða leigja þá út með skálavörslu. Slíkt þýðir meiri kostnað fyrir viðkomandi,“ segir Páll.
Að sögn Páls hafa svipuð mál komið upp í gegnum tíðina en yfirleitt reynt að gera gott úr þeim. En ber svo við að á sama tíma og málið kom upp í Landmannalaugum bárust félaginu myndir úr skála FÍ við Hagavatn þar sem sést að kamínu hefur verið stolið úr skálanum. „Hún er horfin úr skálanum og þá var nú ekki annað hægt en að bregðast við þessu og við munum leita til lögreglu vegna þjófnaðarins,“ segir Páll.