Flest bendir til þess að viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið verði ekki lokið þegar næstu þingkosningar fara fram í síðasta lagi vorið 2013 en forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað lýst því yfir að þeir vonist til þess að hægt verði að standa að málum með þeim hætti. Staðreyndin er þó sú að telja verður svo gott sem útilokað að viðræðunum verði lokið fyrir næstu þingkosningar sé ætlunin að halda sig við það inngönguferli sem Evrópusambandið býður upp á.
Þannig sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 29. maí 2011 að ef viðræður við Evrópusambandið gengju vel gæti samningur legið fyrir um áramótin 2012/2013. Í Morgunblaðinu í gær laugardag er að sama skapi haft eftir Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, að hann telji að þjóðaratkvæði eigi að geta farið fram samhliða þingkosningum vorið 2013.
Ennfremur er haft eftir Steingrími að hann viti „ekki betur en að það sé enn fullkomlega raunhæft að allir kaflarnir opnist innan þessa árs, því miður kannski ekki fyrr en á haustmánuðum, sumir þeirra.“ Þar á Steingrímur við samningskaflana í viðræðunum um inngöngu í Evrópusambandið, sem eru hluti af inngönguferlinu, en kaflarnir eru samtals 35 og er skiptingin á þeim byggð á uppbyggingu lagasafns sambandsins.
Takmarkaður tími til stefnu
Efnislegar viðræður um inngöngu í Evrópusambandið hófust 27. júní síðastliðinn. Á þeim átta mánuðum sem síðan eru liðnir hafa samtals 11 samningskaflar verið opnaðir og þar af átta verið lokað. Flestir þessara kafla heyra undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) að meira eða minna leyti sem Ísland hefur verið aðili að frá árinu 1994. Fyrir vikið hafa viðræður um þá verið tiltölulega einfaldar og í sumum tilfellum nánast formsatriði.
Flestir samningskaflarnir hafa þannig hvorki verið opnaðir enn né þeim lokað og þar á meðal eru þeir málaflokkar sem gert er ráð fyrir að erfiðast verði að semja um og lengstur tími muni fara í s.s. sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Um fjórtán mánuðir eru í næstu áætluðu þingkosningar og innan þess tíma þarf væntanlega að gera ráð fyrir í það minnsta nokkrum vikum fyrir kjósendur til þess að kynna sér fyrirliggjandi samning áður en greidd verða um hann atkvæði í þjóðaratkvæði.
Það þýðir að hefja verði viðræður um þá 24 samningskafla sem ekki hafa verið opnaðir og ljúka þeim, auk þeirra þriggja kafla sem opnaðir hafa verið en viðræðum ekki verið lokið um, á næstu u.þ.b. 12 mánuðum í mesta lagi og þar á meðal um erfiðustu málaflokkana.
Endurskoðun og samþykkt eftir
En það eru fleiri ljón í veginum. Eitt þeirra er að fram hefur komið að Evrópusambandið sé ekki reiðubúið að ganga til viðræðna um sjávarútvegsmál og ljúka þeim fyrr en að lokinni endurskoðun á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins sem nú stendur yfir. Gert er ráð fyrir að sú endurskoðun, og viðræður á milli ríkja Evrópusambandsins um hana og þings sambandsins, muni standa fram á síðari hluta þessa árs og að ný stefna taki gildi 1. janúar 2013.
Samkvæmt því verður væntanlega ekki hægt að hefja viðræður um sjávarútvegsmál fyrr en í fyrsta lagi í haust eða jafnvel ekki fyrr en í byrjun næsta árs. Enn síðar ef tímaáætlun Evrópusambandsins vegna endurskoðunarinnar stenst ekki en alls óvíst er hvort sú verði raunin. Þá er ljóst að ekki verður gengið frá sjávarútvegskaflanum nema að ásættanlegt samkomulag að mati sambandsins liggi fyrir í makríldeilunni.
Einnig þarf að hafa í huga að í inngönguferlinu er gert ráð fyrir því að ekki fari fram þjóðaratkvæði hér á landi um inngöngu í Evrópusambandið fyrr en eftir að öll ríki sambandsins hafa formlega samþykkt samninginn sem og ráðherraráð þess og þing (líkt og til dæmis kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins) en það ferli gæti tekið nokkra mánuði miðað við reynslu annarra ríkja. Þar á meðal þarf samþykki Hollands og Bretlands sem Íslendingar hafa deilt við um Icesave-innistæðurnar.
Ferlið hefur tekið lengri tíma
Við þetta bætist síðan sú staðreynd að inngönguferli Íslands hefur almennt tekið mun lengri tíma en forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa gert ráð fyrir. Þannig má nefna að í viðtali við Zetuna á mbl.is 20. apríl 2009 sagðist Jóhanna Sigurðardóttir telja að það tæki um eitt til eitt og hálft ár fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Í júní á síðasta ári sagðist Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra vona að viðræður um helming samningskaflanna færu fram á því ári og þar á meðal um erfiðustu kaflana. Ljóst er að þetta hefur ekki gengið eftir.
Í nóvember 2011 sagði Össur stefnt að því að allir samningskaflarnir yrðu opnaðir á meðan Danir færu með forsætið innan sambandsins en þeir tóku við því um síðustu áramót. Óvíst er enn hvort það markmið náist en forsæti Dana lýkur í lok júní í sumar. Af sama tilefni sagðist Össur ekki viss um það hvort það tækist að ljúka viðræðunum fyrir þingkosningarnar 2013.
Þannig er ljóst af framansögðu að nær útilokað verður að teljast, ef ekki hreinlega útilokað, að það takist að ljúka viðræðum við Evrópusambandið um inngöngu Íslands fyrir næstu þingkosningar og halda þjóðaratkvæði um hana ef farið verður eftir því ferli sem sambandið býður upp á og tekið mið af þeim áherslum sem það hefur lagt til grundvallar í viðræðunum.