Deividas Marcinkevicius, fyrrverandi unnusti Agné Krataviciuté sem ákærð er fyrir að deyða nýfætt barn sitt, segist vera haldinn mikilli vanlíðan síðan atburðirnir áttu sér stað í júní 2011. Hann hefur slitið öll tengsl við hana og segist ekki vilja hugsa um hvað gerðist.
Agné og Deividas bar saman um það fyrir dómi í dag að þau hefðu kynnst á netinu fyrir um 5 árum síðan og fljótlega rætt um að hún myndi koma til hans til Íslands. Áður en af því varð, í október 2010, höfðu þau aðeins hist einu sinni. Devidas sagði að þau hafi verið afar ástfangin og ætlað sér að vera saman ævilangt. Þau hafi rætt barneignir á almennum nótum og verið sammála um að vilja eignast barn saman seinna meir.
Sleit öll tengsl við konuna
Hann sagðist aldrei hafa grunað að unnusta hans væri ólétt og þegar hann hugsi til baka nú sjái hann heldur ekkert sem hafi bent til þess, líkamlegir burðir hennar hafi verið alveg eins og venjulega. Hann varð ekki var við að hún reyndi nokkurn tíma að hylja nekt sína eða klæða sig öðru vísi.
Deividas sagðist í Héraðsdómi í dag hafa liðið mjög illa allar götur síðan síðasta sumar. Hann hafi misst vinnuna í kjölfarið vegna þess einfaldlega að hann geti ekki unnið, hugur hans sé annars staðar og honum líði mjög illa. „Ég talaði aldrei við hana eftir að kom í ljós hvað gerðist. Ég sá hana einu sinni en talaði ekki við hana,“ sagði Deividas. „Ég er að reyna að gleyma öllu sem gerðist. Hreinsa hjarta og huga minn [...] þetta er eitthvað sem ég vil ekki hugsa um.“