Vitni sem kölluð voru fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag báru öll að ekki hefði verið ljóst að Agné Krataviciuté hefði verið þunguð. Geðlæknar segja allt benda til þess að ekki hafi hvarflað að henni sjálfri að hún væri ólétt. Fæðing barnsins hafi líklega verið henni gríðarlegt áfall.
Tengdamóðir Agné og vinnufélagar hennar á Hótel Frón sögðu að Agné hafi verið fremur þybbin í vextinum og ekki hefði verið hægt að sjá á henni með greinilegum hætti að hún hafi verið ólétt. Sjálf sagðist hún hafa verið á blæðingum allan tímann og ekki fundið nein einkenni þungunar. Vinnufélagi hennar sem þreif með henni herbergi sagði að atorka hennar og líkamlegur styrkur í vinnunni hefðu í engu breyst og fyrrverandi kærasti hennar sagði einnig að líkamsburður hennar hafi ekki breyst neitt. Þá kom fram að tveimur vikum áður en barnið kom í heiminn fór Agné í sund með vinum sínum sem gerðu sér ekki grein fyrir að hún bæri barn undir belti.
Ómeðvituð þungun ekki einsdæmi
Læknar og geðlæknar sem báru vitni staðfestu að þekkt dæmi séu þess að konur gangi fulla meðgöngu án þess að gera sér grein fyrir því, eða að þær bæli grun eða afneiti einkennunum. Geðlæknarnir Lára Björgvinsdóttir og Sigurður Páll Pálsson sem framkvæmdu tvö sjálfstæð geðmöt á Agné sögðust bæði telja að hún virðist enn ekki hafa trú á því að hún hafi gert þetta. „Henni finnst eins og hún verði að trúa því, þegar hún fær í hendur DNA-rannsóknina, en fram að því fannst henni þetta vera eitthvað sem tengdist henni ekkert,“ sagði Sigurður Páll.
Lára sagði að í sínum huga sé Agné manneskja sem elski börn og vilji eignast börn. Hún hafi mikið passað börn í gegnum tíðina og það hafi móðir hennar staðfest. Lára sagði Agné ekki virðast geta horfst í augu við það að hún hafi fætt barnið, en hún hefði komist í mikið uppnám og fyllst sorg yfir að vera komin í þessar aðstæður því hún telji að hún gæti ekki gert svona.
Meðalgreind en óþroskuð
Mat geðlæknanna er í meginatriðum að Agné sé við neðri mörk meðalgreindar. Hún sé óþroskuð miðað við aldur og hafi búið við mikla ofverndun foreldra sinna og verið þeim afar háð, allt fram að þeirri stundu þegar hún ákvað skyndilega að flytja til Íslands án þess að láta þau vita. Hún beri engin merki um andfélagslega truflun eða siðblindu. Hún virðist að mestu heilsteypt en hafi tilhneigingu til að fegra sjálfa sig og veruleikann. Hugsanlegt sé að hún hafi upplifað tímabundið hugrof á einhverjum tímapunkti tengdum fæðingu barnsins, en ólíklegt sé að um líkamlegt minnisleysi um atburðinn sé að ræða, fremur andlega afneitun. Var það m.a. rökstutt með því að hún gæti rakið í miklum smáatriðum allt sem gerðist þennan dag fyrir og eftir fæðinguna. Atburðarásin væri of flókin til að geta gleymst, m.a. í ljósi þess að líki barnsins var vandlega pakkað inn í plastpoka.
Niðurstaða beggja geðmata var hinsvegar að Agné teljist sakhæf.