Klámhögg og lygar

Frá mótmælunum.
Frá mótmælunum. Júlíus Sigurjónsson

„Hættu þessum lygum Jón Gunnarsson!,“ heyrðist hrópað á Alþingi í dag en nokkur hiti var í þingmönnum þegar ummæli Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns um afskipti þingmanna af mótmælum búsáhaldabyltingarinnar voru rædd í þinginu.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var í pontu þegar hrópað var en hann sagðist spyrja sig hvers vegna tveir þingmenn sérstaklega hefðu sakað Geir Jón um dylgjur.

Jón staðfesti í samtali við mbl.is að framíköllin hefðu komið frá Álfheiði Ingadóttur og einnig að þegar hann hefði talað um ákveðinn þingmann í pontu hefði hann átt við hana.

„Ég varð alveg var við það hvernig þingmenn hérna höguðu sér og hvaða ummæli þeir létu falla,“ segir Jón um andrúmsloftið í þinghúsinu á meðan mótmælunum stóð.

„Viðkomandi þingmaður var að gera athugasemdir við störf lögreglu þegar við vorum að horfa út um gluggann og ég spyr hana hvort hún eigi nokkuð við að henni sé alveg sama þótt fólk komi hér inn í þinghúsið og brjóti og bramli. Þá segir hún: „Er það ekki í lagi, eru þetta ekki dauðir hlutir?“,“ segir Jón.

„Hún má kalla þetta hvað sem hún vill en ég kalla þetta glæfralega afstöðu þingmanns sem hefur unnið eið að stjórnarskrá landsins,“ bætir hann við.

Álfheiður ítrekaði að engin rannsókn hefði verið gerð á framgöngu þingmanna né kæmi nafn hennar nokkurs staðar fram í málaskrá lögreglu. Sagði hún bara eitt orð til yfir málflutning Jóns Gunnarssonar: Klámhögg.

Geir Jón Þórisson sagði í samtali við mbl.is á sunnudag að ljóst hefði verið að þingmenn hefðu haft áhrif á bæði staðsetningu mótmælenda og harðan framgang. Hann hefði fengið það staðfest að þingmenn í þinghúsinu hefðu verið í beinum samskiptum þaðan við mótmælendur. Nefndi hann þó engin nöfn í þessu samhengi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert