Karlmaður liggur þungt haldinn á gjörgæslu eftir að ráðist var á hann í samkvæmi í fjölbýlishúsi á Laugavegi í fyrrinótt, en hann fannst alblóðugur og meðvitundarlaus fyrir utan húsið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var manninum vísað úr samkvæminu eftir deilur.
Einn maður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag, en tveir aðrir tengjast málinu á þann hátt að þeir fóru með árásarmanninum út á eftir manninum sem ráðist var á. Ekki þótti þó ástæða til að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim.
Maðurinn gekkst undir aðgerð á höfði á Landspítalanum í gær og er nú haldið sofandi.
Lögregla telur málið að mestu leyti vera upplýst.