„Ekki hægt að svindla meira á samkeppni“

Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Samkeppniseftirlitsins.
Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Samkeppniseftirlitsins. Morgunblaðið/Andri Karl

„Engum blöðum er um það að fletta, að þetta var ólögmætt samráð og eins alvarlegt og hægt er að hugsa sér. Það er ekki hægt að svindla meira á samkeppni en með samráði,“ sagði Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Samkeppniseftirlitsins, við aðalmeðferð um olíusamráðið í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hann fer fram á að skjólstæðingur sinn verði sýknaður af kröfum olíufélaganna, og úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála staðfestur.

Olíufélögin þrjú, ESSO (Ker hf.), Olís og Skeljungur krefjast þess að ógiltur verði úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um sektir sem á þau voru lögð vegna ólöglegs samráðs, þær sektir verulega lækkaðar eða málið fellt niður vegna þess að brotin voru fyrnd. Nánar var sagt frá kröfum félaganna á mbl.is fyrr í dag.

Síðastur tók til máls við aðalmeðferðina Heimir Örn sem fór stuttlega yfir málið. Hann benti á brotin hefðu staðið yfir í níu ár, og olíufélögin hefðu enn „verið að hamast í samráðinu þegar samkeppnisyfirvöld hófu rannsókn sína“. Auk þess tók hann fram, að brotin hefðu ekki hætt þegar rannsóknin hófst heldur haldið áfram í fáein ár eftir 2001.

Heimir sagði málið sýna skólabókardæmi um þaulskipulagt samráð, og að íslenski oliumarkaðurinn á þessum árum hafi verið lýst sem kjörlendi fyrir slíkt samráð. „Þetta var ekki fákeppnismarkaður, þetta var samráðsmarkaður.“

Fyrirmyndarmálsmeðferð

Aðalkrafa olíufélaganna snýr að því að málsmeðferðin brjóti í bága við lög og því beri að ógilda úrskurð áfrýjunarnefndar skipulagsmála, en nefndin sektaði félögin um rúman einn og hálfan milljarð króna. Heimir sagði hins vegar að málsmeðferðin hefði verið til mikillar fyrirmyndar. „Ekkert mál sem tekið hefur verið til skoðunar hjá samkeppnisyfirvöldum hefur fengið eins ítarlega rannsókn,“ sagði Heimir og bætti við að auk þess hefði farið fram sjálfstæð meðferð fyrir áfrýjunarnefndinni þar sem félögin lögðu fram viðbótarupplýsingar.

Þá sagði hann að félögin hafi margítrekað fengið tækifæri til að koma sínum athugasemdum á framfæri, birtar voru frumathuganir til að auðvelda félögunum og í hvívetna gætt að andmælarétti. „Þetta er allt til marks um óvenju vandaða stjórnsýslumeðferð.“

Einnig sagði Heimir, að ef einhverju hefði verið áfátt í meðferð málsins hjá samkeppnisyfirvöldum hefði verið bætt úr því fyrir áfrýjunarnefndinni, sem sé æðra stjórnsýslustigið.

Út í hött að brotin séu fyrnd

Varakrafa olíufélaganna snýr að því að brotin hafi verið fyrnd. Heimir sagði þetta gjörsamlega út í hött. Þegar litið er til þess að brotum félaganna hafi lokið í desember 2001, þegar húsleit samkeppnisyfirvalda var gerð, þá hafi brotin fyrnst fimm árum síðar, en þá var málið þegar komið fyrir héraðsdóm.

Verjendur olíufélaganna halda því fram að miða eigi við tveggja ára fyrningarfrest og að hann hafi ekki verið rofinn fyrr en með ákvörðun Samkeppnisráðs á árinu 2004. Rökin fyrir því að miða eigi við tvö ár eru sett fram á þeim grunni að lögum var breytt árið 2000 og fresturinn lengdur. Hins vegar hafi flest brotin verið framin fyrir þann tíma og því eigi að miða við eldri lög.

Þetta sagði Heimir ekki tækt því um samfelld brot væri að ræða sem hafi lokið í desember 2001, í fyrsta lagi. Því eigi að miða við yngri lög og miða við fimm ára frest. Sé hins vegar miðað við eldri lög skipti það ekki máli því fyrningarfrestur hafi verið rofinn með húsleitinni, á sama tímapunkti og brotum lauk. Ekki sé hægt að líta svo á að fresturinn hafi verið rofinn með ákvörðun Samkeppnisráðs, heldur hafi Samkeppnisstofnun og Samkeppnisráð verið eitt og sama batteríið og þegar farið var í húsleitina og rannsóknin hafin var olíufélögunum ljóst að lögbrot voru til rannsóknar. Því hafi fyrningarfrestur verið rofinn þá og þegar.

Verulegur ávinningur af samráðinu

Þrautavarakrafa olíufélaganna er á þá leið, að lækka beri sektirnar verulega því ekki hafi tekist að sanna ávinning þeirra af samráðinu. Heimir segir það misskilning hjá verjendum að sanna þurfi upp á krónu hver ávinningurinn var. Það sé ekki hægt, og þurfi því alltaf að vera matskennt. Hins vegar sé fullkomlega sannað að ávinningur olíufélaganna hafi verið meiri en nemur álögðum stjórnvaldssektum. „Það má deila um aðferðina við útreikninginn en samkeppnisyfirvöld höfðu rétt fyrir sér.“

Auk þessa nefndi Heimir að frá þingfestingu málsins, haustið 2005, hafi nokkur fjöldi mála gengið í Hæstarétti þar sem rétturinn segir berum orðum að félögin hafi haft ávinning af samráðinu. Ekkert segi heldur í gögnum málsins að mat samkeppnisyfirvalda sé verulega rangt. „Það er sannað með fullnægjandi hætti að félögin höfðu verulegan ávinning af þessu.“

Aðalmeðferðinni lauk undir kvöld og var málið dómtekið. Er því um sex ára meðferð þess fyrir héraðsdómi svo gott sem lokið. Aðeins á eftir að kveða upp dóm, sem verður á næstu vikum. Verður að þykja fullkomlega ljóst, að dómnum verði svo áfrýjað til Hæstaréttar.

Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Samkeppniseftirlitsins, leitar í skjölum sínum.
Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Samkeppniseftirlitsins, leitar í skjölum sínum. Morgunblaðið/Andri Karl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka