Engin réttlæting á barnsdrápinu að mati sækjanda

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Agné Krataviciuté myrti nýfætt barn sitt af því að það hentaði henni ekki að eignast barn á þessum tíma. Svo hljóðar kenning sækjanda, Helga Magnúsar Gunnarssonar, í málinu gegn henni. Hann sagði ekkert mál hafa valdið sér jafnmiklu hugarangri en sama hvað reynt væri að finna skýringu á framferði hennar væri engin undankomuleið.

Helgi sagði að málið væri tvíþætt. Annars vegar þyrfti að sanna að sakborningur hefði fætt barnið og deytt það. Taldi hann að sýnt væri fram á að svo hefði verið með yfirþyrmandi sönnunargögnum. Það sem eftir stæði væri því að reyna að greina huglæga afstöðu hennar til atburðarins og átta sig á því hvað henni gekk til þegar hún kyrkti barnið.

Eðlilegt að reyna að finna skýringar

„Ég hef aldrei verið með mál sem hefur valdið mér eins miklu hugarangri. Vandinn er að þetta er atvik sem við getum ekki skilið. Við skiljum ekki að manneskja geri barninu sínu svona hluti og af þeirri ástæðu leitumst við alltaf við að finna einhverja skýringu. Að þetta hafi verið slys, að manneskjunni hafi ekki verið sjálfrátt eða hún hljóti að vera með einhvern geðsjúkdóm sem veldur því að hún geri þetta. Öðru vísi geri manneskja  svona ekki. En er það þannig?“ sagði Helgi. 

Hann vísaði til 212 gr. almennra hegningarlaga þar sem tilgreint er að ef móðir deyði barn sitt í fæðingu eða strax eftir fæðingu og ætla megi að hún hafi gert það vegna neyðar, ótta um hneisu eða sökum veiklaðs eða ruglaðs hugarástands sem hún hafi komist í við fæðinguna, þá varði það fangelsi allt að 6 árum, í stað 16 ára hámarks eins og á almenn við um mannsdráp. 

Aftan úr forneskju

Helgi vildi meina að þetta ákvæði væri „hálfgerð forneskja“ og ætti ekki við. Bakgrunnurinn væri gamalt samfélag þar sem ungar stúlkur voru ómagar á heimilum bænda, án úrræða og þær jafnvel óttast um eigið líf og barnsins. Ekki hafi verið um neitt slíkt að ræða í þessu máli. Ákærða hafi búið við öruggar aðstæður hjá tengdafjölskyldu sinni, hún og barnsfaðirinn bæði verið í fastri vinnu og að hún hafi borið fyrir rétti að barn yrði velkomið í heiminn í huga beggja fjölskyldna.

Það eina sem eftir standi því sé hvort hún hafi ekki verið fær um að stjórna gjörðum sínum vegna ástandsins sem hún var í.

Hagkvæmnissjónarmið ráðið ferðinni

Tveir geðlæknar og einn sálfræðingur báru vitni fyrir dómnum í gær. Fram kom í máli þeirra að Agné sé meðalgreind, en óþroskuð tilfinningalega, en jafnframt að það einkenni sé á persónuleika hennar að reyna að fegra heiminn og loka á það sem samræmist ekki væntingum hennar til lífsins. Helgi vísaði í þessa umsögn til stuðnings kenningu sinni um að hagkvæmnissjónarmið hefði ráðið því að hún greip til þess ráðs að drepa barn sitt, því það hefði ekki hentað henni að verða móðir á þessum tímapunkti.

Hún hafi því afneitað meðgöngunni, annaðhvort með meðvitaðri eða ómeðvitaðri bælingu. „En svo fæðist barnið, liggur grátandi og horfir í augun á henni, og þá getur hún ekki afneitað þessu lengur,“ sagði Helgi. Líkast til hafi hún þurft að leggja töluvert á sig til að blekkja sjálfa sig en þegar raunveruleikinn blasi við hrynji veröldin. Þetta hugarástand væri hinsvegar ekki á því stigi að hún væri ófær um að stjórna gerðum sínum. Helgi sagði jafnframt að jafnvel þótt hún hefði verið í einhvers konar áfalli við fæðinguna, líkamlegu og andlegu, og ætlaði sér ekki að horfast í augu við að hún hefði eignast barn og deytt það, þá leysti það hana ekki undan refsiábyrgð. 

Hvernig er hinn hefðbundni morðingi?

Þá velti Helgi upp þeirri spurningu hvernig „hinn hefðbundni morðingi“ væri og hvort ákærða væri í nokkru frábrugðin. „Er hann haldinn siðblindu eða sjálfselsku um að hans eigin plön gangi framar öllum öðrum. Bregst hann við með tímabundinni reiði þegar hann fær ekki sitt fram? Þannig aðstæður eru til staðar þegar manndráp eru framin og þannig er það hér.“

Skiljanlegt væri að einhvers konar hugaræsingur hefði verið til staðar eftir fæðinguna en manndráp væru oft framin í æsingi og það væri ekki afsökun. „Það er erfitt að horfast í augu við að þetta geti verið ástæðan en [...] sækjandi telur að dómur verði að byggja niðurstöðu sína á atvikum máls, ekki á einhvers konar þörf okkar fyrir að finna skýringu sem samræmist okkar vel meinandi huga,“ sagði Helgi.

Sækjandi og lögmaður kröfuhafa í dómssal í dag.
Sækjandi og lögmaður kröfuhafa í dómssal í dag. Mbl.is/Una
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka