Enginn ávinningur sannaður

Eyvindur Sólnes, Telma Halldórsdóttir og Hörður Felix Harðarson, lögmenn olíufélaganna, …
Eyvindur Sólnes, Telma Halldórsdóttir og Hörður Felix Harðarson, lögmenn olíufélaganna, við aðalmeðferðina í dag. Morgunblaðið/Andri Karl

Samkeppnisyfirvöldum tókst ekki að sanna að olíufélögin ESSO, Olís og Skeljungur. hefðu haft ávinning af samráði sínu. Þetta segja verjendur félaganna og beitt hefði verið röngum forsendum við útreikning auk þess sem mistök hefðu verið gerð við útreikninginn. Þetta kom fram við aðalmeðferð málsins í dag.

Eins og kom fram á mbl.is fyrr í dag skiptu verjendur olíufélaganna með sér verkum. Hörður Felix Harðarson, lögmaður Skeljungs, færði rök fyrir aðalkröfu félaganna og varakröfunni en Telma Halldórsdóttir, lögmaður Kers hf. (ESSO), og Eyvindur Sólnes, lögmaður Olís, fóru yfir þrautavarakröfuna í málinu. Hún snýr að því að lækka beri sektir sem lagðar voru á félögin verulega.

Telma benti á að samkvæmt þeim sektarheimildum sem samkeppnisyfirvöld höfðu á umræddum tíma bar þeim að sanna ávinning af samráðinu. Í nýrri lögum hefði þetta verið afnumið, einmitt vegna þess hversu erfitt væri að sanna ávinning af samráði og hversu mikill hann væri.

Meðal þess sem Telma vísaði til voru matsgerðir í málinu og svo framburður vitna í morgun, þ.e. matsmanna sem spurðir voru út í matsgerðir sínar. Telma sagði það hafa komið skýrt og greinilega fram að ekki hefði tekist að sanna ávinning af samráðinu og því beri að lækka sektarfjárhæðirnar verulega.

Hún sagði margt hafa getað orðið til þess að framlegð olíufélaganna var meiri á umræddu tímabili, og nefndi þá gengi, verðbólgu, aukna notkun afsláttarkorta og ýmislegt fleira. 

Eyvindur vísaði til úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála þar sem segir orðrétt: „Áfrýjunarnefnd samkeppnismála telur að við ákvörðun stjórnvaldssekta við þessar aðstæður skuli einkum hafa í huga þann ávinning sem félögin þrjú hafa sannanlega haft af hinu ólögmæta samráð.“

Hann sagði að þarna kæmi fram með skýrum hætti að ávinningurinn yrði að vera sannaður. Félögin hefðu hins vegar gert margvíslegar athugasemdir við útreikning samkeppnisyfirvalda, og hefði áfrýjunarnefndin tekið tillit til einhverra þeirra. 

Þá mótmælti hann því að lögmaður Samkeppniseftirlitsins ætlaði sér að byggja á matsgerðum um sönnun ávinnings sem byggðist á allt öðrum forsendum en samkeppnisyfirvöld gáfu sér. Hann sagði að ef það væri tekið gilt væri um að ræða gróft brot á andmælareglu og rannsóknarreglu. Einnig væri þá dómstólinn  að taka aðra ákvörðun en samkeppnisyfirvöld gerðu. Hins vegar væri sú eina spurning sem dómstóllinn ætti að skera úr um hvort forsendur úrskurðar áfrýjunarnefndar stæðust. 

Aðalmeðferð heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka