Hafði ekki stjórn á gjörðum sínum

Hótel Frón við Laugarveg
Hótel Frón við Laugarveg Mbl.is/Árni Sæberg

Andlegt og líkamlegt ástand Agné Krataviciuté var slíkt eftir óvænta fæðingu barns á Hótel Fróni síðasta sumar að hún hafði enga stjórn á gjörðum sínum eða vitneskju um það sem fram fór. Enginn ásetningur var því til staðar, að sögn Daníels Pálmasonar, skipaðs verjanda hennar í málinu, og verknaðurinn því ekki saknæmur. 

Verjandi fór fram á það í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að Agné yrði sýknuð af ákærunni um barnsdráp eða, ef fundin sek, gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Kröfuna byggði hann á því að saknæmisskilyrði fyrir sakfellingu væri ekki uppfyllt. Í 18. grein almennra hegningarlaga segir að verknaður sé ekki saknæmur nema hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi. Hvorugt var til staðar í þessu máli að sögn Daníels.

Stöðugur og trúverðugur framburður

Daníel rakti fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun atburði málsins eins og hin ákærða upplifði þá, allt frá hinni ómeðvituðu meðgöngu til þess þegar henni var sýnt fram á með DNA skýrslu að hún hefði eignast barn, en þá fyrst virtist hún átta sig á því að það hefði raunverulega gerst. Enn hefur Agné þó ekki eðlilegar minningar um það sem gerðist á hótelherberginu og virðist bæla minningar sínar, sem að sögn Daníels er þekkt í svona málum og yfirleitt ómeðvitað fyrirbrigði. Matsmenn merki ekki að hún sé að reyna að blekkja, heldur upplifi hún hlutina svona enn í dag. 

Daníel sagði allt benda til þess að ákærða hefði fengið verulegt áfall þegar hún byrjaði skyndilega að fæða barn. Við það hefði orðið einhvers konar hugrof, sem skýrði framferði hennar og minnisleysi.

Í framburði Agné fyrir dómnum í gær kom fram að hún hefði ekki borið nein merki þungunar á meðgöngunni og ekki áttað sig á því sjálf að hún væri ólétt. Verjandi benti á að þessi framburður hennar hefði allt frá 2. júlí 2011 verið mjög stöðugur og trúverðugur og að öll vitni sem komu fyrir dóminn hefðu haft sömu sögu að segja, ekki einu sinni þáverandi unnusta hennar hefði grunað að hún væri ólétt. 

Virtist „rugluð, hrædd og týnd“

Daginn sem hún átti barnið byrjaði henni að blæða mikið þegar hún var við vinnu sína á Hótel Fróni. Samkvæmt framburði bæði hennar og vitna var hún aðeins ein á hótelherberginu í um 10-20 mínútur og bendir allt til þess að þá hafi fæðingin og voðaverkið átt sér stað. Þegar hún kom niður á kaffistofu eftir þetta var hún að sögn vinnufélaga sinna  útötuð í blóði á buxum og höndum. Þegar henni var bent á blóðið hváði hún við og virtist sjálf ekki hafa áttað sig á því. Ein hótelþernan bar fyrir dómi að Agné hefði virst „rugluð, hrædd og týnd“ þegar hún kom niður. 

Daníel sagði þessar lýsingar skjóta stoðum undir þá kenningu að hugarástand hennar hefði verið veiklað. Þá styddi það hennar framburð enn frekar að staðfest er að hún kom barninu ekki sjálf fyrir í ruslagámnum þar sem það fannst, heldur virðist það hafa verið skilið eftir í poka á ganginum við hótelherbergið. Inni á herberginu gerði hún einnig litla tilraun til að þrífa verksummerkin eftir sig, því að sögn vinnufélaga sem báru vitni var þar enn allt í blóði þegar málið var kannað. 

„Að þessu sögðu þykir mér það skýrt að ásetningur ákærðu lá aldrei til þess að skaða nýfætt barn sitt. hún hefur líka haldið því stöðugt á lofti að barnið hefði í raun verið velkomið,“ sagði verjandi og vísaði þar m.a. í framburð ákærðu og vitna um að hún hefði ætíð verið barngóð og ætlað sér sjálf að verða móðir í framtíðinni. 

Áfallið skýri minnistap

Agné ætlaði sjálf að halda áfram vinnu og taldi ekki ástæðu til að leita læknis. Læknar sem skoðuðu hana staðfestu hinsvegar fyrir dómi að hún hefði misst talsvert blóð, verið með sýkingu og meðalsvæsna meðgöngueitrun. Allt hefði þetta getað valdið henni vanlíðan. „Í ljósi þess að hún vissi ekki af óléttu sinni en fór skyndilega ein af stað í fæðingu með sýkingu og blóðmissi verður að fallast á það að barnsburðurinn hafi verið henni gríðarlegt líkamlegt og andlegt áfall [...] Þessi miklu áföll renna stoðum undir hennar framburð að um raunverulegt minnistap hafi verið að ræða, s.k. hugrof, “ sagði Daníel. 

Þá hafnaði verjandi vangaveltum sækjanda um að lagaákvæði um dulsmál væri tímaskekkja og sagði gilda ástæðu fyrir því að enn væri í gildi ákvæði um að vægari refsing væri við því að móðir deyddi barn sitt en við hefðbundnum manndrápum. Hann benti jafnframt á að sambærileg ákvæði væru til staðar í nágrannalöndum okkar.

Daníel Pálmason skipaður verjandi í málinu í dómssal í morgun.
Daníel Pálmason skipaður verjandi í málinu í dómssal í morgun. Mbl.is/Una
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert