Verjendur olíufélaganna þriggja sem samkeppnisyfirvöld ákváðu að sekta um háar upphæðir vegna samráðs gera kröfu um að ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem staðfesti ákvörðunina en lækkaði sektir, verði ógilt. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað frá enda hafi brotin verið fyrnd. Þetta kom fram við aðalmeðferð málsins í dag.
Um er að ræða hið upphaflega olíusamráðsmál en Samkeppnisráð ákvað 28. október 2004 að leggja sektir á olíufélögin Esso (Ker hf.), Olís og Skeljung, eftir rannsókn Samkeppnisstofnunar sem hrundið var af stað með húsleit, haldlagningu skjala og afritun tölvutækra gagna á starfsstöðum félaganna 18. desember 2001. Þeirri ákvörðun skutu félögin til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem kvað upp úrskurð í málinu 29. janúar 2005 og lækkuðu sektirnar í öllum tilvikum. Nefndin dæmdi olíufélögin til að greiða samtals 1.505 milljónir í sekt, sem þau greiddu með fyrirvara um lögmæti þeirra.
Félögin höfðuðu í kjölfarið mál og voru þau þingfest og sameinuð haustið 2005. Síðan þá hefur málið verið rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaviḱur. Hörður Felix Harðarson, lögmaður Skeljungs, hóf málflutning í dag. Hann sagði tafirnar að rekja til allra málsaðila og þess að farið hefði verið fram á fjölmargar matsgerðir.
Verjendur skipta með sér málflutningi og fór Hörður Felix yfir aðal- og varakröfu olíufélaganna. Fyrir það fyrsta er farið fram á að úrskurður áfrýjunefndarinnar verði ógiltur. Er krafan sett fram á þeim grundvelli að málsmeðferð hafi farið gegn lögum, brotið hafi verið á andmælarétti og rannsóknarreglu.
Meðal þess sem Hörður vísaði til var að þegar rannsókn samkeppnisyfirvalda var vel á veg komin hóf embætti ríkislögreglustjóra sjálfstæða rannsókn á meintum brotum starfsmanna félaganna sem tók til sama tímabils. Þessu hafi þá þegar verið mótmælt af félögunum en einnig hafi komið upp deilur milli samkeppnisyfirvalda og ríkislögreglustjóra um það hvaða embætti ætti að halda áfram og klára rannsóknina.
Hörður benti á að ríkissaksóknari hefði varað samkeppnisyfirvöld við því að halda rannsókn áfram og taldi rétt að málið yrði aðeins til meðferðar hjá ríkislögreglustjóra. Hvorugt embættið gaf hins vegar eftir og héldu bæði áfram rannsókn.
Rannsókn ríkislögreglustjóra leiddi til þess að forstjórar félaganna voru ákærðir og lauk máli þeirra með dómi Hæstaréttar árið 2007. Staðfesti rétturinn niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem vísaði málinu frá. Hörður fór yfir dóminn og þá gagnrýni sem kom fram í honum á rannsókn málsins. Sagði Hörður að málið hefði orðið til að samkeppnislögum hefði mikið verið breytt, og reynt að bæta úr helstu annmörkum sem voru á fyrri lögum. Því væri búið að girða fyrir að sama staða kæmi upp aftur og kom fyrir í þessu máli.
Hörður sagði lagabreytingarnar augljóslega þarfar en að eftir stæði spurningin, hvaða þýðingu það hefði að félögin hefðu bæði þurft að sæta því að vera með réttarstöðu sakbornings í lögreglurannsókn á sama tíma og samkeppnisyfirvöld voru með þau til rannsóknar. Hann sagði að það hefði meðal annars orðið til þess að brotið hefði verið gegn andmælarétti félaganna, sem ekki gátu skilað inn athugasemdum við rannsókn samkeppnisyfirvalda, enda með réttarstöðu sakborninga og kusu því að nýta sér þagnarrétt. „Félögin báru enga ábyrgð á þessu. Þetta kom til vegna meingallaðrar löggjafar,“ sagði Hörður og einnig að áfrýjunarnefndin hafi ekki tekið þetta fyrir að ráði.
Þá vísaði Hörður að nýju í dóm Hæstaréttar en þar er á það bent að engin fyrirmæli hafi verið um það í lögum hvernig skilja bæri á milli heimilda lögreglu til rannsóknar samkvæmt þeim og rannsóknar samkeppnisyfirvalda. Ekki hafi verið mælt fyrir um hvernig lögreglu bæri að haga rannsókn sinni væri mál til meðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum. „Þá var því ósvarað hvort lögreglurannsókn mætti fara fram á sama tíma og rannsókn samkeppnisyfirvalda eða hvort gert væri ráð fyrir að hún fylgdi í kjölfarið.“
Einnig gagnrýndi Hæstiréttur að mælt væri fyrir um áhrif byrjaðrar lögreglurannsóknar á rannsókn samkeppnisyfirvalda og heimild þeirra til álagningar stjórnvaldssekta við slíkar aðstæður. „Þá var ekki kveðið á um hvort gögn eða upplýsingar, sem aflað hefði verið við rannsókn samkeppnisyfirvalda, yrðu afhent lögreglu eða hvort nota mætti slíkar upplýsingar, sem fyrirsvarsmenn félaga hefðu veitt, sem sönnunargögn í opinberu máli gegn þeim.“
Hörður sagði og vísaði til orða Hæstaréttar, að mikil óvissa hefði því ríkt á þessum tíma. Fyrirkomulagið hefði ekki verið nógu skýrt um meðferð máls ef grunur vaknaði um að brotið hefði verið gegn lögunum, og var þar af leiðandi óskýrt hvernig með skyldi fara ef tilefni þætti til opinberrar rannsóknar jafnhliða meðferð samkeppnisyfirvalda og hvenær beita ætti refsiviðurlögum.
Hvað varðar andmælaréttinn benti Hörður á félögin gætu ekki átt að taka þátt í viðræðum og samningum við Samkeppnisstofnun og veita henni upplýsingar, en fella á sama tíma á sig sök með því að málið var síðar tekið til refsimeðferðar. Hörður sagði brot gegn andmælareglunni verulegan annmarka sem leiddi til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar.
Varakrafa olíufélaganna er vegna fyrningar brota þeirra. Hörður sagði að beita bæri fyrningarreglum almennra hegningarlaga sem voru tvö ár á fyrrihluta þess tímabils sem samráð olíufélaganna nær til. Upphaf fyrningartímans ber að meta við upphaf rannsóknar, sem var húsleit Samkeppnistofunnar, og fyrning hafi verið rofin með ákvörðun Samkeppnisráðs.
Lögunum var breytt árið 2000 en þá var samþykkt sérregla um fyrningu brota lögaðila, sem var þá lengt í fimm ár frá tveimur árum. Hörður sagði að dómari yrði að skera úr um hvort beita bæri tveggja ára reglunni eða fimm ára reglunni. Hann vísaði til ýmissa gagna sem benda til þess að beita beri tveggja ára reglunni.
Hörður vísaði í ákvæði almennra hegningarlaga þar sem segir: „Þegar lög heimila stjórnvaldi endranær að kveða á um refsingu fyrir brot rofnar fresturinn þegar stjórnvaldið sakar mann um slíkt brot.“ Þó svo að samkeppnisyfirvöld hafi haldið því fram að fyrningarfresturinn hafi verið rofinn með húsleit liggi fyrir að aðeins Samkeppnisráð gat lagt á sektir, og var því stjórnvald. Samkeppnisstofnun hafi ekki farið með neinar slíkar heimildir, heldur aðeins undirbúið mál fyrir Samkeppnisráð.
Sökum þessa sé enginn vafi á að það hafi aðeins verið Samkeppnisráð sem gat rofið fyrninguna, og það hafi verið gert með ákvörðun hennar í október 2004. „Þá voru liðin þrjú ár síðan refsiverðri háttsemi lauk.“
Að endingu sagði Hörður að þó svo þetta kynni að þykja óeðlilegt hefði lagaramminn verið svona á þessum tíma. Lögunum hefði verið breytt síðan þá til að koma í veg fyrir að svona lagað kæmi upp. Hann sagði að ekki væri hægt að teygja og toga eldri lög til að stoppa í umrædd göt eða galla sem voru á löggjöfinni á þessum tíma.
Aðalmeðferðin heldur áfram.