Viðhorf Gunnars í andstöðu við FME

Formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins segir það vera mat stjórnarinnar að forstjóri FME geti ekki lagt mat á hugsanleg brot annarra eða hæfi þeirra vegna afstöðu sinnar í fyrri störfum. Þar er vísað til upplýsingagjafar forstjórans, Gunnars Andersen, um aflandsfélög á vegum Landsbankans, en hann hafði aðkomu að þeim.

Þetta segir í bréfi stjórnar FME, sem undirritað er af formanni hennar, Aðalsteini Leifssyni.

„Í andmælum sínum hinn 9. febrúar síðastliðinn tekur Gunnar algerlega af skarið um að hann telji upplýsingagjöf sína árið 2001 hafa verið rétta og það að geta um tilvist aflandsfélaganna hefði beinlínis verið rangt,“ segir í bréfinu.

„Þetta viðhorf er í hróplegri andstöðu við afstöðu Fjármálaeftirlitsins sem birst hefur í kærum eftirlitsins til lögregluyfirvalda.“

Í bréfinu segir að það sé mat stjórnarinnar að Gunnar hafi átt beinan þátt í því að dylja tilvist þessara aflandsfélaga fyrir FME, en hafi jafnframt sjálfur greint frá því að tilgangurinn með starfrækslu þeirra hafi verið að hafa áhrif á efnahagsreikning Landsbankans með því að færa tilteknar eignir til þessara félaga sem þannig væru ekki tilgreindar opinberlega sem eignir bankans. 

„Af þessum sökum sýnist leynd um yfirráð bankans yfir þessum félögum hafa verið mjög mikilvæg til að ná þessum markmiðum,“ segir í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka