Hæstiréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms um að Herbert Guðmundsson og eiginkona hans greiði um 3,6 milljónir króna vegna vangoldinna hússjóðsgjalda. Um er að ræða deilu, sem hefur verið lengi til umfjöllunar í dómstólum og Hæstiréttur hefur m.a. vísað kröfunni frá einu sinni.
Málið snýst um þak á fjölbýlishúsi við Prestbakka í Breiðholti í Reykjavík. Hafa lengi staðið deilur á milli Herberts Þ. Guðmundssonar, sem á íbúðina, og húsfélagsins vegna viðgerða á þaki hússins. Um er að ræða hússjóðsgjöld vegna tímabilsins 1. janúar 2006 til 15. maí 2009, samtals að fjárhæð 5.410.800 krónur að frádregnum kostnaði vegna viðgerðar á þökum annarra eigenda í raðhúsalengjunni.
Hæstiréttur sagði að Herbert og konan ættu að greiða umrædd gjöld þar sem ákvarðanir um þau hefðu verið teknar á löglegan hátt á fundum húsfélagsins, en þó ekki þann hluta þeirra er laut að kostnaði við viðgerðir á þökum annarra eigenda fjöleignarhússins.