22 fulltrúar af 25 þegar boðað þátttöku

Stjórnlagaráð á fundi.
Stjórnlagaráð á fundi. mbl.is/Golli

22 fulltrúar stjórnlagaráðs hafa þegar boðað þátttöku sína á fundi ráðsins 8. mars næstkomandi en 25 fulltrúar eru í ráðinu. Tveir eru erlendis, Pawel Bartoszek og Salvör Nordal. Frestur til að tilkynna þátttöku rennur út síðdegis. Pawel býr erlendis og hefur tilkynnt að hann ætli ekki að taka þátt í frekari fundum ráðsins.

Verkefni ráðsins verður samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var nýverið „að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mögulegum breytingum á frumvarpinu, sem og um aðra þætti í frumvarpinu sem ráðinu þykir þurfa. Verði það niðurstaða stjórnlagaráðs að tilefni sé til að gera breytingar á áður fram komnum tillögum skal ráðið skila breytingartillögum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis eigi síðar en 12. mars 2012.“

Þorsteinn Fr. Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stjórnlagaráðs, heldur utan um undirbúning fundarins. Fundurinn mun fara fram í húsnæði menntavísindasviðs Háskóla Íslands og hefst kl. 10 fimmtudaginn 8. mars. Honum á að ljúka sunnudaginn 11. mars og verða svör ráðsins afhent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins mánudaginn 12. mars.

Þorsteinn segir viðbrögð stjórnlagaráðsfulltrúana góð. „Þau hafa verið að koma saman óformlega og ræða málin. Fulltrúarnir eru búnir að fá spurningarnar og eru að velta vöngum. Almennt eru fulltrúarnir mjög jákvæðir og ætla að demba sér í þetta,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert