Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, mætti að eigin frumkvæði til skýrslutöku hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun vegna kæru stjórnar FME á hendur honum. Í kjölfarið var hann yfirheyrður vegna málsins.
Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn staðfesti þetta við mbl.is. Ekki hafði verið búið að boða Gunnar í skýrslutöku þegar hann mætti sjálfur á staðinn. Friðrik segir að verið sé að fara yfir þau gögn sem lögð hafi verið fram í málinu og í framhaldinu verði tekin ákvörðun um hvort því verði vísað áfram til ríkissaksóknara.