Baldur kærir til Mannréttindadómstóls

Baldur Guðlaugsson og Karl Axelsson, lögmaður hans, í héraðsdómi.
Baldur Guðlaugsson og Karl Axelsson, lögmaður hans, í héraðsdómi. mbl.is/Jón Pétur

Baldur Guðlaugsson hefur falið LEX lögmannsstofu að senda kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem í dómi Hæstaréttar yfir honum hafi í veigamiklum atriðum verið brotinn réttur á Baldri í skilningi ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í fréttatilkynningu frá LEX segir m.a. að í fyrsta lagi sé talið að brotið hafi verið gegn rétti Baldurs til að þurfa ekki að sæta endurtekinni málsmeðferð vegna refsiverðrar háttsemi en sá réttur sé sérstaklega varinn í viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í öðru lagi er talið að réttur Baldurs til réttlátrar málsmeðferðar hafi ekki verið virtur þar sem hann var sakfelldur fyrir annað en hann var ákærður fyrir. Baldur var ákærður fyrir að hafa verið annar innherji í skilningi laga en sakfelldur fyrir að hafa verið tímabundinn innherji, segir í tilkynningu LEX.

Í þriðja lagi er talið að réttur Baldurs til réttlátrar málsmeðferðar hafi ekki verið virtur þar sem Hæstiréttur tók ekki afstöðu til ýmissa veigamikilla atriða í vörn Baldurs, þar með talin sú grundvallarstaðreynd að hvorki Landsbankinn né Fjármálaeftirlitið töldu þær upplýsingar sem Baldur var dæmdur fyrir að hafa búið yfir vera innherjaupplýsingar.

Í fjórða lagi er talið að réttur Baldurs til réttlátrar málsmeðferðar hafi ekki verið virtur þar sem sönnunarbyrði í málinu hafi í reynd verið snúið við og hann því ekki notið þeirra grundvallarréttinda að teljast saklaust uns sekt er sönnuð.

Í fimmta dagi er talið að réttur Baldurs hafi ekki verið virtur þar sem verulegur vafi leiki á því að mál hans hafi í raun notið óvilhallrar meðferðar fyrir dómi.

„Vegna framangreinds hefur Baldur Guðlaugsson falið LEX að senda kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu og verður það gert á næstunni,“ segir í tilkynningu LEX.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert