„Það er ekki nóg að móðgast“

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson mbl.is/Jóhannes.tv

„Þetta kom mér alls ekki á óvart,“ segir Snorri Óskarsson, grunnskólakennari á Akureyri, um þá ákvörðun lögreglustjóraembættisins á Akureyri að vísa kæru á hendur honum frá, en Pétur Maack forstöðusálfræðingur lagði fram kæru hjá lögreglunni á Akureyri fyrir síðustu helgi vegna skrifa Snorra um samkynhneigða á bloggi sínu. 

„Mér skilst að samkvæmt lögum þurfi fólk að eiga hlutdeild að máli til að geta kært það, það er ekki nóg að móðgast yfir hinu og þessu,“ segir Snorri.

Hann verður í leyfi frá störfum sínum við Brekkuskóla á Akureyri fram í ágúst og hyggst snúa aftur til kennslustarfa að því loknu. 

Honum var sagt að hann ætti kost á að hefja kennslu aftur í haust, ef hann hætti að tjá sig á netinu um samkynhneigð. „Já, það er búið að banna mér að blogga um það efni,“ segir Snorri. „Mér skilst að ég megi blogga um allt annað, sem þeir eru sammála mér um, en ég veit ekki hvað við erum sammála um og hvað ekki.“

Snorri segir að viðbrögðin við bloggskrifum sínum hafi væntanlega ekki haft þau áhrif sem til var ætlast. „Þeir eru hræddir um að skoðanir mínar séu skaðlegar fyrir börnin í skólanum. En ef þau hafa einhvern tímann vitað af skoðunum mínum, þá er það núna, eftir þetta allt saman,“ segir Snorri sem hyggst einbeita sér að trúboðsstarfi næstu mánuðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka