Ólafur Ragnar gefur kost á sér

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Reuters

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann lýsir því yfir að hann hafi ákveðið að verða við óskum um að hann gefi kost á sér til embættis forseta Íslands. Hann biður þjóðina um að sýna því skilning, ef hann ákveði að hverfa til annarra starfa áður en kjörtímabili lýkur.

„Að undanförnu hefur birst í áskorunum, könnunum, viðræðum og erindum ríkur vilji til þess að ég breyti þeirri ákvörðun sem ég tilkynnti í nýársávarpinu,“ segir Ólafur í yfirlýsingunni.

„Í rökstuðningi er vísað til vaxandi óvissu varðandi stjórnskipan landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá, umróts á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis, sem og átaka um fullveldi Íslands. Þá er einnig áréttað mikilvægi þess að standa vörð um málstað þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.“ 

„Í ljósi alls þessa og í kjölfar samráðs okkar hjóna og fjölskyldunnar hef ég ákveðið að verða við þessum óskum og gefa kost á því að gegna áfram embætti forseta Íslands sé það vilji kjósenda í landinu.“

„Það er þó einlæg ósk mín að þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst, ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda og forsetakjör fari þá fram fyrr en ella.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert