Unnið úr ofbeldinu áratugum síðar

mbl.is/Kristinn

„Ég verð aldrei búin að vinna í mér, en ég vex með hverju skrefi, og þetta var langstærsta skrefið sem ég hef tekið á ævinni," segir fertug kona, sem ítrekað var beitt kynferðisofbeldi í æsku. Hún þakkar tilraunaverkefninu Gæfusporunum því að hún hafi í fyrsta sinn náð að vinna úr líkamlegri og andlegri vanlíðan. 

Öryrkinn sem gekk á fjall

Konan, sem hér verður kölluð Berglind, var beitt kynferðislegu ofbeldi frá tveggja ára aldri fram á unglingsár. Hún segir ofbeldið hafa brotið sig niður á líkama og sál svo hún hafi aldrei verið heil síðan. Hún byrjaði að finna fyrir óútskýrðum verkjum í líkamanum í kringum fermingaraldurinn sem síðan undu upp á sig. „Læknaskýrslurnar eru margir kílómetrar," segir Berglind og bætir við að flestir þolendur kynferðisofbeldis í æsku eigi langa læknasögu að baki þegar komið er fram á fullorðinsár. 

„Það voru stoðkerfisvandamál og hjartavandamál. Sjálfsmyndin var í molum. Ég fór á svona lyf og hinsegin lyf en í rauninni fannst aldrei neitt að. Ég hafði bara öll einkenni, en það var ekkert vitað af hverju. Ég hef verið öryrki síðan 2004. En í dag geri ég hluti sem mig dreymdi ekki um að gera áður. Halda ræður, tala við [blaðamann]. Ég gekk á fjall í sumar. Ég hefði aldrei trúað því að ég gæti gengið upp á fjall.“

Brotnar á líkama og sál

Á undanförnum 12 mánuðum hefur líf Berglindar breyst til hins betra. Í mars 2011 hóf hún þátttöku í tilraunaverkefninu Gæfusporunum, sem rekið var af Starfsendurhæfingu Norðurlands með styrk frá starfsendurhæfingarsjóði VIRK. Tilgangur verkefnisins var að þróa og byggja upp þverfagleg meðferðarúrræði fyrir fullorðna þolendur kynferðisofbeldis í æsku. Þátttakendur voru 12 konur á aldrinum 22-53 ára sem sóttu markvissa meðferð með hópi fagfólks í 10 vikur. 

Konurnar áttu það sameiginlegt að hafa allar verið beittar kynferðislegu ofbeldi í æsku og glímt við afleiðingar þess allar götur síðan. Þær voru allar mjög brotnar og illa staddar í upphafi meðferðarinnar. Þrjár þeirra höfðu aldrei áður unnið úr sinni reynslu og voru að segja sögu sína í fyrsta skipti. 11 þeirra voru ekki á vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þær áttu allar við margvísleg og flókin heilsufarsleg vandamál að stríða, voru félagslega einangraðar með brotna sjálfsmynd og treystu sér ekki í vinnu eða nám. 

Flestar komnar í starf eða nám 

Nú ári síðar hefur skýrsla verið unnin um áhrif meðferðarinnar, sem stóð í 10 vikur auk tveggja vikna eftirfylgni og mánaðarlegs viðtals síðan. 10 af konunum 12 luku meðferðinni með fullnægjandi ástundun til að hægt væri að meta árangurinn, en tvær mættu illa af heilsufarsástæðum og ein flutti burt strax að loknu verkefninu þannig að hún lauk ekki öllum prófunum í lokin. Ótvíræður árangur mældist hjá þeim 9 sem eftir standa.

Sjö þeirra eru nú komnar með starf, ýmist fullt starf eða hlutastarf á móti námi. Ein þeirra er í fullu framhaldsskólanámi. Ein er í sama hlutastarfi og hún var áður auk þess að sinna sjálfboðaliðastarfi. Öllum líður þeim betur í dag en fyrir ári síðan, bæði á sál og líkama. Þær segja Gæfusporin hafa styrkt sjálfsmyndina, bætt heilsu og líðan og aukið félagslega virkni. 

Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands stýrði verkefninu. Hún segir árangurinn framar vonum. „Þetta var eiginlega miklu meira en við bjuggumst við. Í raun renndum við blint í sjóinn því þetta var algjört tilraunaverkefni.“ 

Horfst í augu við rót vandans

Sérstaða Gæfusporanna er að þar er með kerfisbundnum hætti blandað saman hefðbundnum og óhefðbundnum aðferðum. Konurnar fengu sálfræðiviðtöl, persónulega ráðgjöf varðandi mataræði, hreyfingu og líkamsþjálfun eins og vefjagigtarleikfimi. Þær sóttu jóga og hópspjalltíma, margskonar fræðslu, nudd, sköpunar- og tjáningartíma og gátu valið milli meðferða s.s. djúpslökunar, nudds eða höfuðbeina- og spjaldbeinsmeðferðar.

Sigrún segir það hafa gefist einkar vel fyrir konurnar að geta á einum stað unnið svo heildstætt úr vandamálum sínum. Miklu máli hafi skipt að þær væru þarna allar á sömu forsendum, því mikið traust hafi myndast í hópnum. 

„Það eru náttúrulega til endurhæfingarprógrömm fyrir ýmis vandamál en þá ertu ekki að vinna með ofbeldið sem er rót vandans. Það má rekja alla þessa heilsubresti til ofbeldisins, afleiðingarnar eru bæði sálrænar og líkamlegar og í stað þess að vera í verkjahóp, eða offituhóp, og þannig sífellt að dansa kringum eldinn þá vorum við að vinna með heildina.“

Verðmætt fyrir þjóðfélagið

Eftirfylgni er ekki lokið, því Sigrún mun funda með hópnum mánaðarlega í tvö ár. Hún segist vongóð um að framfarirnar séu varanlegar og konurnar geti haldið áfram að byggja á þeim grunni. Í ljósi góðs árangurs var ákveðið að halda áfram með verkefnið og verður farið af stað með nýjan hóp nú í mars, í samvinnu við Starfsendurhæfingu Norðurlands.

Sigrún bendir á að það sé verðmætt fyrir samfélagið að virkja fólk út á vinnumarkaðinn. „Með því að setja svona prógramm og grípa inn í tímanlega er líka hægt að fyrirbyggja að fólk verði öryrkjar. Því það tekur svolítinn tíma að verða öryrki af þessum sökum og þetta eru allt konur sem eru búnar að malla í kerfinu í áraraðir.“

Hélt að líkaminn væri bara gallað eintak

Hvað Berglindi varðar þá var hún eins og hinar konurnar búin að fara til skiptis milli lækna og sálfræðinga í hátt í 30 ár og prófað ýmsar óhefðbundnar leiðir, en í Gæfusporunum hafi hún í fyrsta skipti upplifað að vinna með líkama, huga og sál samtímis. „Þessi meðferð var ógeðslega erfið, því þú þarft að setja sjálfan þig í fyrsta sætið í 10 vikur og maður er ekki vanur því að setja sjálfan sig í fyrsta sætið. Þarna tók ég öll áföllin fyrir og það var ómetanlegt."

Berglind starfar í dag hjá sjálfshjálparhópum fyrir þolendur ofbeldis og segist hiklaust mæla með Gæfusporinu við skjólstæðinga sína þar. „Það er ekki svo langt síðan ég skildi af hverju líkaminn minn er eins og hann er. Ég hélt bara að ég væri svona gallað eintak, en þegar ég vinn með mínum skjólstæðingum í dag sé ég öll þessi einkenni hjá þeim og þá tengi ég þetta allt saman." 

Hún segir dæmigert að konur í þessum sporum glími við flókin móðurlífsvandamál, s.s. sífelldar blöðrubólgur og bólgur í eggjastokkum. Þá þjáist þær af kvíða, þunglyndi og framtaksleysi, eigi erfitt með að mynda tengsl við börn sín og maka og séu á sífelldum flótta undan sjálfum sér og raunveruleikanum. 

Sjálf segist Berglind sterkari einstaklingur í dag að öllu leyti. „Ég er heilsteyptari manneskja og betri móðir. Ég finn stóran mun á börnunum mínum og fæ reglulega að heyra núna, „mamma, þú ert best“. Bara það eitt gerði þetta þess virði." 

Þolendur kynferðisofbeldis í æsku glíma margir við andlegar og líkamlegar …
Þolendur kynferðisofbeldis í æsku glíma margir við andlegar og líkamlegar afleiðingar þess alla ævi. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum við HÍ.
Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum við HÍ.
Gæfusporin eru þverfagleg meðferðarúrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis í æsku.
Gæfusporin eru þverfagleg meðferðarúrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis í æsku. Mbl.is/Una
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert