Horfði inn í hlaup byssunnar

Komið með einn sakborninga fyrir dóm.
Komið með einn sakborninga fyrir dóm. mbl.is/Sigurgeir

Farþegi í bílnum sem skotið var á 18. nóvember síðastliðinn í Bryggjuhverfinu í Reykjavík sagðist hafa verið afar skelkaður. Hann svo gott sem horfði inn í hlaup haglabyssunnar áður en hleypt var af.

Eins og áður hefur komið fram fór aðalmeðferð yfir þremur mönnum sem ákærðir eru fyrir tilraun til manndráps fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og verður framhaldið á morgun. Mennirnir, Axel Már Smith, Kristján Halldór Jensson og Tómas Pálsson Eyþórsson, fóru saman á bifreið á bifreiðastæði við bifreiðasöluna Höfðahöllina að Tangarbryggju 14 í Reykjavík, þar sem þeir höfðu mælt sér mót við mann vegna ágreinings um fjárskuld.

Í ákæru segir að Kristján Halldór hafi skotið úr haglabyssu einu skoti í áttina að bíl mannsins, en ekki hæft. Þegar svo maðurinn ók á brott veittu mennirnir honum eftirför og skaut Kristján Halldór öðru skoti út um glugga bifreiðarinnar. Við skotið brotnaði afturrúða bíls fórnarlambsins og miklar skemmdir urðu á bifreiðinni.

Var hræddur við að mæta

Ökumaður bifreiðarinnar átti skuld inni hjá Tómasi og ætlaði að hitta hann til að ræða um upphæðina. Með honum var hins vegar annar maður, og gaf hann skýrslu fyrir dómi í dag. Hann sagði ökumanninn hafa hringt í sig sökum þess að hann hafði slæma tilfinningu fyrir fundinum. „Hann var hræddur við að hitta þennan strák,“ sagði maðurinn en einnig að hann hafi ekki vitað hvers vegna.

Hann lýsti því þegar þeir komu á bifreiðaplanið, að mennirnir þrír hafi ekið í veg fyrir bílinn. Stokkið út og hlaupið að honum. Ökumaðurinn hafi þá þegar sett í bakkgír og reyndi að komast burtu. Þeir voru að bakka þegar Kristján tók upp afsagaða haglabyssu og hleypti af. Hann sagðist hafa horft beint á Kristján og svo gott sem inn í hlaup byssunnar og sér sýndist ljóst að hann hafi miðað á bílinn.

Maðurinn sagðist hafa verið mjög skelkaður og hafi beðið ökumanninn um að stoppa stuttu eftir að þeir komust undan, þannig hann kæmist út úr bílnum og frá málinu.

Lögreglumaður sem kom fyrir dóminn lýsti því þegar ökumaðurinn mætti á lögreglustöð eftir árásina. Hann sagði manninn hafa verið hræddan og í hálfgerðu áfalli. Gert er ráð fyrir að maðurinn gefi skýrslu á morgun.

Stoltur af skotárásinni

Þá lýstu vitni því yfir sem hittu mennina eftir árásina, að Tómas hefði gortað sig af henni. „Hann var voðalega ánægður með þetta,“ sagði eitt vitnið og annað: „Hann var eitthvað mjög stoltur af þessu.“ Vitnin könnuðust hins vegar ekki við að aðrir sakborningar hefðu tekið þátt í umræðum um skotárásina.

Þá var töluvert rætt um hvort atlagan hefði yfirleitt verið lífshættuleg, t.d. út frá þeirri fyrirstöðu sem afturglugginn veitti, og eins í hvaða fjarlægð Kristján skaut að bílnum. Hvorki lögreglumaður í tæknideild né byssusmiður gátu hins vegar svarað því með fullri vissu. Gagnrýndu verjendur þá, að þetta hefði ekki verið fullrannsakað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert