Telur Guðlaug hafa lekið gögnum

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, telur alþingismanninn Guðlaug Þór Þórðarson hafa komið gögnum um sig til Kastljóss og að þau gögn hafi verið undirstaðan í umfjöllun þáttarins um hann í nóvember síðastliðnum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Stjórn FME kærði Gunnar til lögreglu fyrir helgi vegna gruns um að hann hefði brotið af sér í starfi með því að hafa, með ólögmætum hætti, aflað sér upplýsinga um Guðlaug Þór.

„Það er fullyrt í mín eyru, af mönnum sem ég treysti og trúi, að Guðlaugur Þór hafi komið gögnunum til Kastljóss sem umfjöllun þáttarins um mig byggðist á,“ segir Gunnar í samtali við Fréttablaðið.  Hann vill ekki gefa upp hverjir það eru sem hafa fullyrt þetta.

Gunnar telur einnig augljóst að miklu magni af gögnum um hann hafi verið lekið út úr Landsbankanum í þeim tilgangi að koma höggi á hann. Þá hafi skýrslur sem teknar hafi verið af honum hjá lögreglu í tengslum við rannsókn á Hauki Þór Haraldssyni, fyrrverandi starfsmanni Landsbankans, einnig ratað til fjölmiðla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka