Öryggisgæsla efld víða í kjölfar árásar

Guðgeir Guðmundsson hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag.
Guðgeir Guðmundsson hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag. Ljósmynd/pressphotos.biz

Það var mikið að gera hjá Securitas og Öryggismiðstöðinni í gær í kjölfar alvarlegrar hnífstunguárásar á lögmannsstofunni Lagastoð í gær og óskuðu nokkur innheimtufyrirtæki og lögfræðistofur eftir að fá öryggisverði á skrifstofur sínar.

Securitas sinnir öryggisgæslu fyrir margar lögfræðistofur og fjármálafyrirtæki. Að sögn Guðmundar Arasonar framkvæmdastjóra höfðu margir frá fyrirtækjunum samband við þá í gær. „Við sendum nokkra öryggisverði út í gær til innheimtufyrirtækja og lögfræðistofa,“ segir hann og bætir við að fólk hafi verið ansi skelkað. „Það var einn, á annarri lögmannsstofu en þeirri sem árásin átti sér stað, sem sagði við mig í gær að hann ætti von á áfallateymi til að koma og ræða við starfsfólkið og róa það.“

Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri hjá Öryggismiðstöðinni, segir marga hafa haft samband í gær. „Reyndar hafa fyrirtæki verið að fara í gegnum öryggismál hjá sér síðustu vikur og efla varnir. Þau hafa verið að skoða sín mál og virðast taka þessu alvarlegar en oft áður. Í kjölfar árásarinnar í gær komu síðan til okkar viðskiptavinir, margir með áhyggjur, og sumir gripu til ráðstafana,“ segir hann. „Sumir fengu ráðgjöf, aðrir skoðuðu með uppsetningu á öryggishnöppum þannig að starfsmenn gætu kallað til aðstoð hraðar ef á þyrfti að halda og í einhverjum tilfellum var ákveðið að fá mannaða gæslu á staðinn.“

Drómi eflir öryggið

Hjá Dróma, sem tók yfir lán sem Frjálsi fjárfestingabankinn og Spron veittu, var haldinn öryggisfundur í morgun. „Við erum búnir að efla öryggið og erum að gera ýmsar breytingar og á fundinum var verið að fara yfir hluta breytinganna sem eru á döfinni og ræða þetta atvik,“ segir Magnús Pálmarsson upplýsingafulltrúi en Drómi er til húsa í Lágmúla, líkt og Lagastoð. Seinnipart febrúarmánaðar réðst óánægður viðskiptavinur inn á heimili stjórnanda hjá Dróma og í kjölfarið var gripið til aðgerða. Eftir árásina í gær er verið að endurskoða ýmsa ferla og reyna að auka öryggið enn frekar. „Við erum áfram í þessari endurskoðun og erum að reyna að tryggja að velferð starfsfólksins sé varin.“

Ákveðið var í gær að herða öryggisgæsluna hjá innheimtufyrirtækinu Motus en eins og komið hefur fram í fréttum fór lán árásarmannsins Guðgeirs Guðmundssonar í vanskil og var Lagastoð falið að innheimta skuldina. „Óhjákvæmilega er farið yfir allar öryggisreglur þegar svona atburður á sér stað,“ segir Sigurður A. Jónsson forstjóri og segir starfsfólki fyrirtækisins hafa verið afar brugðið þegar það frétti af árásinni. Hann segir þekkt í þessum geira að starfsfólk fái hótanir um líkamlegt ofbeldi. „Menn eru sjóaðir en auðvitað er ákveðið sjokk að sjá svona hluti verða að raunveruleika.“

Þegar haft var samband við viðskiptabankana fengust þær upplýsingar að öryggismálin væru í góðum farvegi. „Hér er ákveðin öryggisgæsla og við mátum það sem svo að það þyrfti ekki að auka hana vegna þessa atburðar að svo stöddu,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi hjá Arion banka. „Fólki var virkilega brugðið, þetta var hræðilegur atburður og við munum í kjölfarið fara yfir mál sem snúa að öryggismálum en við höfum ekki gripið til neinna aðgerða út af þessu. Maður vonar að þetta sé bara einstakt atvik en við tökum þessu auðvitað alvarlega.“

„Öryggismál bankans eru í góðum og öruggum farvegi,“ segir Soffía Sigurgeirsdóttir, á skrifstofu bankastjóra Landsbankans. „Við hörmum þennan atburð og lítum hann alvarlegum augum en við munum ekki gera ráðstafanir eða breytingar á öryggisþáttum bankans vegna hans,“segir hún og bætir við að starfsfólki hafi verið brugðið þegar fregnir bárust af árásinni í gær og hafi í kjölfarið verið rætt við það.

Hjá Íslandsbanka fengust þær upplýsingar að eðli málsins samkvæmt væru öryggismál alltaf í forgangi hjá bankanum en að öðru leyti vildi bankinn ekki tjá sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert