Vitnið í skotárásarmálinu sem ekki hefur látið sjá sig í Héraðsdómi Reykjavíkur, og gefin hefur verið út handtökuskipun á, er maðurinn sem sakborningar skutu í Bryggjuhverfinu 18. nóvember síðastliðinn. Sá setti fyrst fram bótakröfu í málinu en dró hana síðar til baka. Finnist hann ekki þarf að fresta málinu.
Tveir menn voru í bílnum sem skotið var á í umrætt sinn en þrír menn, Axel Már Smith, Kristján Halldór Jensson og Tómas Pálsson Eyþórsson, eru allir ákærðir fyrir tilraun til manndráps í málinu. Þeir fóru saman á bifreið á bifreiðastæði við bifreiðasöluna Höfðahöllina að Tangarbryggju 14 í Reykjavík, þar sem þeir höfðu mælt sér mót við umrætt vitni vegna ágreinings um fjárskuld.
Vitnið átti skuld inni hjá Tómasi og ætluðu mennirnir sér að fá hann til að hætta við innheimtu hennar. Farþeginn í bílnum kom fyrir dóminn í gær og gaf skýrslu. Hann hefur ekki dregið bótakröfu sína til baka.
Tilkynnt var um það við aðalmeðferðina í gær, að vitnið sem ekki finnst hafi dregið bótakröfu sína til baka í málinu. Ekki var þó gefin fyrir því ástæða.