Afrituðu yfir þúsund kort

mbl.is/ÞÖK

Tveir Rúmenar hafa verið úrskurðir í gæsluvarðhald, en þeir eru grunaðir um að hafa afritað á annað þúsund greiðslukort hér á landi. Mennirnir voru handteknir fyrir helgi, en rannsókn á málinu stendur enn yfir.

Mennirnir komu fyrir búnaði í tveimur hraðbönkum, við Hlemm og í Austurstræti, og afrituðu upplýsingar af segulrönd kortanna.

Kristján Harðarson hjá Valitor segir að mennirnir hafi afritað segulrönd á tæplega þúsund kortum. Þetta séu allt kort sem ekki eru með örgjörva, en um helmingur allra debetkorta er með örgjörva. Öll ný kort eru með örgjörva.

Kristján segir að búið sé að loka öllum kortunum. Upplýsingar hafi verið sendar til bankanna og þeir séu nú að hafa samband við viðskiptavini sína. Kristján segir að einstaklingar verði ekki fyrir tjóni af þessum sökum og það séu örfáar milljónir sem mennirnir hafi komist yfir.

Kristján segir að þær upplýsingar sem mennirnir hafi komist yfir séu sendar utan þar sem reynt sé að búa til ný kort og þar með að taka út peninga af kortareikningum. Hann segir að íslenska eftirlitskerfið hafi í þessu máli virkað mjög vel og tekist hafi að koma í veg fyrir tjón.

Haukur Oddsson, framkvæmdastjóri Borgunar, segir að mennirnir hafi afritað um 600 krot frá Borgun. Fyrirtækið fari hins vegar yfir fleiri kort til að fullvissa sig um að ekki hafi verið átt við þau.

Haukur segir að tekist hafi að koma í veg fyrir stófellt tjón. Lögreglan hafi í þessu máli staðið sig frábærlega og greinilegt sé að hún búi yfir mikilli þekkingu á því hvernig eigi að fara í svona mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka