„Hann stakk mig tvisvar í vinstra lærið en mér tókst að ná hnífnum af honum og halda honum niðri. Á þessum tímapunkti var ég ekki búinn að gera mér grein fyrir því að ég hafði verið stunginn,“ segir lögmaðurinn Guðni Bergsson um hnífstunguárásina á lögmannsstofunni Lagastoð á mánudaginn.
Eins og kunnugt er skarst Guðni í leikinn þegar maður réðst að samstarfsfélaga hans með veiðihnífi. Hann liggur nú þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans og er haldið sofandi í öndunarvél.
Guðni er í viðtali við fréttavefinn Bolton News, en hann spilaði knattspyrnu fyrir Bolton Wanderers í átta ár, og segir þar frá árásinni. „Ég sá árásina eiga sér stað svo ég þaut inn á skrifstofuna hans [samstarfsfélagans] og sá að þar var blóð og ég reyndi að komast þangað eins hratt og ég gat til að koma hnífnum frá honum.“
Guðni var í kjölfarið stunginn tvisvar í lærið en honum tókst að fjarlægja hnífinn úr höndum árásarmannsins. „Ég er í dálitlu losti en hugur minn er hjá samstarfsfélaga mínum og ég vona að hann lifi þetta af.“
Rætt er við vin Guðna og fyrrverandi liðsfélaga, Jimmy Phillips, sem heyrði í Guðna skömmu eftir að hann var útskrifaður af spítala. „Hann gerir lítið úr þessu en það segir mjög mikið um manninn að hann hugsaði ekki um að hann væri að leggja sjálfan sig í hættu heldur um að koma samstarfsfélaga sínum til bjargar.“