Karlmaður á sextugsaldri liggur enn þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að hafa orðið fyrir fólskulegri líkamsárás á lögmannsstofu síðastliðinn mánudag. Að sögn læknis á gjörgæsludeild er ástand mannsins óbreytt og er honum haldið sofandi í öndunarvél. Hann er í lífshættu.
Maðurinn var fluttur á sjúkrahús með mikla stunguáverka. Lögmaður á stofunni kom starfsfélaga sínum til bjargar og var árásarmaðurinn yfirbugaður í kjölfarið.
Árásarmaðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur játað verknaðinn og verður gert að sæta geðrannsókn.