Úraræningi í fimm ára fangelsi

Marcin Tomasz Lech fyrir dómi.
Marcin Tomasz Lech fyrir dómi. Morgunblaðið/Kristinn

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á allar kröfur í máli ákæruvaldsins gegn Marcin Tomasz Lech, einum þeirra sem framdi rán í Michelsen úrsmiðum 17. október sl. Lech var dæmdur í fimm ára fangelsi, bíll hans gerður upptækur og honum gert að greiða 14 milljónir til Vátryggingafélags Íslands.

Lech játaði þátt sinn í málinu, og lýsti fyrir dómi hvernig hann kom að skipulagningu ránsins og að hann hefði komið hingað til lands gagngert til að flytja ránsfenginn úr landi.

Saksóknari sagði að Lech hefði verið ákærður sem aðalmaður og hann játað samkvæmt ákæru. Þó svo hann hefði sjálfur ekki ruðst inn í verslun Michelsen hefði þáttur hans síst verið minni. Hann hugðist fara með ránsfenginn úr landi en um hefði verið að ræða um fimmtíu úr, andvirði yfir fimmtíu milljóna króna.

Verjandi Lech fór fram á vægustu refsingu yfir skjólstæðingi sínum. Hann sagði að Lech hefði tekið verkið að sér vegna langvarandi atvinnuleysis og peningaskorts. Hann hefði ekki vitað nákvæmlega hvað stóð til, annað en að hann ætti að flytja úr landi og til Póllands illa fenginn varning.

Hann sagði að ef litið væri til dómafordæma ætti tveggja ára fangelsi að þykja eðlilegur dómur.

Vátryggingafélag Íslands gerði 14 milljóna króna skaðabótakröfu í málinu vegna skemmda á úrunum, og var fallist á hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert