Vítisenglum beint frá Íslandi

Vítisenglar.
Vítisenglar. Reuters

Ísland er eina landið í heiminum sem Vítisenglar (e. Hells Angels) hafa beint félagsmönnum sínum frá. Gefin hafa verið út tilmæli þess efnis, að Vítisenglar sæki ekki landið heim því ljóst sé að þeim verði vísað frá. Það kunni að koma óorði á samtökin, sem sé óheppilegt í ímyndarherferð þeirra.

Þetta kom fram í máli Karls Steinars Valssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, á hádegisverðarfundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, um skipulagða glæpastarfsemi. Auk Karls Steinar hélt erindi Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.

Eftir erindin var opnað fyrir spurningar úr sal. Meðal annars var spurt hvort íslenskir glæpahópar hefðu reynt að ná fótfestu innan fjölmiðla. Jón sagði bersýnilegt að Vítisenglar hefðu sína fjölmiðlastefnu, og reyndu að koma því skýrt á framfæri að samtökin væru friðsöm og fjölskylduvæn. Það væri hins vegar hluti af áróðursstríði sem samtökunum hefði gengið vel með hér á landi. „Við höfum skynjað það, að fjölmiðlar óttist að fjalla um samtök af þessu tagi.“

Karl Steinar sagði glæpasamtök hafa áhuga á að nálgast fjölmiðla, sem þyrftu að taka mið af því. Hann sagði það til að mynda gerast þegar lögregla sendi út fréttatilkynningar að glæpasamtök svöruðu fjölmiðlum og gæfu út yfirlýsingar. Með því væri reynt að fegra ímynd samtakanna. Lögregla hefði látið þau svör standa, en það væri nokkuð sem lögregla þyrfti að huga betur að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert