Úraræningi til Íslands í næstu viku

Verslun Franks Michelsens á Laugavegi var rænd í október.
Verslun Franks Michelsens á Laugavegi var rænd í október. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Annar Pólverjanna sem rændu úraverslun Franks Michelsens í október, og voru handteknir í Sviss í febrúar síðastliðnum, verður væntanlega sóttur til Sviss í næstu viku og fluttur hingað til lands þar sem réttað verður yfir honum. Framsal mannanna tveggja hefur verið samþykkt af svissneskum yfirvöldum. Einhver töf verður á því að hinn maðurinn komi hingað til lands en hann sætir nú rannsókn vegna afbrota í Sviss.

Framsalsbeiðni ríkissaksóknara fékk skjóta afgreiðslu í Sviss og þó að einhver dráttur verði á því að annar mannanna komi hingað til lands, verður hann að lokum framseldur, samkvæmt heimildum mbl.is.

Fulltrúar lögreglunnar munu að öllum líkindum strax í næstu viku fara til Sviss og sækja annan manninn.

Við komuna til landsins verður svo farið fram á gæsluvarðhald yfir honum og mun mál hans fara í hefðbundinn farveg í kjölfarið.

Fjórir menn rændu verslun Franks Michelsens á Laugavegi um hábjartan dag í október á síðasta ári. Einn þeirra var handtekinn skömmu síðar hér á landi en hinir þrír höfðu farið úr landi. Tveir þeirra voru svo handteknir í Sviss í febrúar og var þegar farið fram á að þeir yrðu framseldir til Íslands. Fjórði  maðurinn er væntanlega í heimalandi sínu, Póllandi en mennirnir þrír voru allir eftirlýstir af Interpol.

Sá sem handtekinn var á Íslandi var í héraðsdómi í gær dæmdur í fimm ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka