Baldur hefur hafið afplánun

Baldur Guðlaugsson
Baldur Guðlaugsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hefur hafið afplánun á tveggja ára dómi sínum. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.

Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV hefur hann setið í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg síðustu tvo daga en verður færður fljótlega.

Heimildir fréttastofu RÚV herma að hann muni afplána dóminn á Kvíabryggju eða Bitru en þangað fara flestir þeirra fanga sem ekki eru taldir hættulegir við upphaf afplánunar.

Hæstiréttur staðfesti tveggja ára fangelsisdóm yfir Baldri vegna innherjasvika og brota í opinberu starfi.

Baldur var ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum 17. og 18. september 2008. Baldur var þá ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika.

Baldur hefur falið LEX lögmannsstofu að senda kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem í dómi Hæstaréttar yfir honum hafi í veigamiklum atriðum verið brotinn réttur á Baldri í skilningi ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert