Úraræningi úrskurðaður í gæsluvarðhald

Hreinsað upp eftir ránið í úraverslun Michelsen á Laugavegi.
Hreinsað upp eftir ránið í úraverslun Michelsen á Laugavegi. Rebekka Líf Albertsdóttir

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst síðdegis á kröfu um gæsluvarðhald yfir pólskum karlmanni sem grunaður er um aðild að ráni hjá Michelsen úrsmiðum 17. október sl. Maðurinn verður í haldi til 21. mars nk. Maðurinn var framseldur hingað til lands frá Sviss og kom til landsins í dag.

Maðurinn var handtekinn í Sviss ásamt öðrum manni sem einnig er grunaður um aðild að úraráninu. Óvíst er enn hvenær hann verður framseldur en hann er til rannsóknar fyrir afbrot í Sviss. 

Stutt er síðan Marcin Tomasz Lech, einn þeirra kom að ráninu, var dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Lech gaf ítarlega skýrslu fyrir dómi um þátt hvers og eins í ráninu og mun vitnisburður hans vera eitt helsta sönnunargagn í málinu.

Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag næst verði tekin verði skýrsla af manninum og málið rannsakað frekar hvað hans þátt varðar. Þegar sambærileg skýrsla hefur verið tekin af hinum manninum og rannsókninni telst formlega lokið fer málið í hefðbundna ákærumeðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert