Hefði getað orðið milljarða tjón

Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri á Selfossi, segir að með mikilli vinnu slökkviliðsmanna hefði tekist að forða milljarðatjóni þegar eldur kviknaði í geymsluhúsi röraverksmiðjunnar Set á Selfossi. Grunur leikur á að orsök brunans sé rafmagnsbilun.

Gríðarlegur röralager er á lóð Sets og lágu mikið af rörum upp við geymsluhúsið sem kviknaði í. Kristján segir að mikil hætta hefði verið á að eldurinn kæmist í þessi rör sem hefði getað leitt hann áfram yfir í verksmiðjuhúsið. Bara vélbúnaðurinn í því húsi kostar hundruð milljóna. Hann segir að ef allt hefði farið á versta veg hefði tjónið í brunanum getað orðið tveir milljarðar. Hann segir að ekki sé búið að meta það tjón sem varð en það gæti verið 60-100 milljónir.

Einn af slökkviliðsmönnum á Selfossi starfar jafnframt hjá Set og Kristján segir að það hafi nýst vel í dag því hann hafi vitað hvernig best var að standa að því að fjarlægja rörin sem voru við geymsluhúsnæðið sem brann. Rörin voru á milli húsanna og því hefðu þau auðveldlega getað leitt eldinn áfram í sjálft verksmiðjuhúsið.

Slökkviliðið verður ekki með vakt á brunastað í nótt. Búið er að hreinsa með krabbabíl allt innbú veitingastaðarins 800 bar og ekki er talin hætta á að kvikni í geymsluhúsi Sets. Lögreglan mun hins vegar fylgjast með rústunum í nótt.

Rafmagn sló út um kl. 12

Engir starfsmenn voru í geymsluhúsinu þegar eldurinn kom upp, en starfsmenn í verksmiðjuhúsinu urðu varir við að ein vél sló út um kl. 12. Um 45 mínútum síðar urðu menn varir við eldinn. Kristján segir að við rannsókn á eldsupptökum beinist því grunur manna að rafmagnsbilun, en allir aðrir möguleikar verði einnig skoðaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert