„Margt hjálpaðist að“

Frá Laxá á Ásum.
Frá Laxá á Ásum. mbl.is

„Það voru margir þættir sem smullu saman og gerðu það að verkum að þetta fór svona vel,“ segir Kári Kárason, sem sýndi mikið snarræði í gær þegar hann kom að bíl, sem hafði oltið ofan í Laxá á Ásum.

„Við sáum bílinn taka snögga beygju, ég hélt fyrst að það væri sprungið á honum. Síðan gerðist allt svo snögglega, hann endastakkst á bakkanum og lenti síðan úti í ánni á hvolfi,“ segir Kári, en hann kom akandi á móti bílnum. Með Kára í för var 13 ára sonur hans.

„Ég var 50-100 metra frá honum, stoppaði og hringdi strax í Neyðarlínuna og gaf þeim upp staðsetningu. Síðan lét ég strákinn minn hafa símann og vera í samskiptum við Neyðarlínuna á meðan ég reyndi að opna dyrnar á bílnum í ánni. Það var ekki hægt að opna bílstjóramegin, en ég fór lengra út í ána og tókst að opna farþegadyrnar. Maðurinn var fastur í belti og ég gat ekki losað það.“

Þegar þarna var komið sögu var bíllinn hálffullur af vatni, hann var á hvolfi og ökumaðurinn því með höfuðið ofan í vatninu og að auki fastur í beltinu. Kári greip því til þess bragðs að lyfta höfðinu upp úr vatninu og stóð í ískaldri ánni uns hjálp barst. „Ég fattaði ekkert hvað það hafði verið kalt fyrr en ég var kominn upp úr,“ segir Kári og segir ekki hafa liðið á löngu þar til aðstoð barst.

„Það voru í mesta lagi átta mínútur. Viðbragðsflýtirinn á Blönduósi er ofboðslega góður.“

Kári segir margt hafa hjálpast að við þessar aðstæður þannig að ekki fór verr. „Ég var svo heppinn að sjá þetta gerast, ég hefði hugsanlega annars ekki tekið eftir þessu og keyrt framhjá. Svo voru sjúkraflutningamenn farþegar í fyrsta bílnum sem ók framhjá, en strákurinn minn var úti á vegi og stöðvaði þá og þeir komu niður til að hjálpa mér.“

Hann segir tilviljun hafa ráðið því að hann var þarna á ferðinni á þessum tíma og segist eiga erfitt með að gera sér í hugarlund hvað hefði gerst hefði hann ekki komið svona fljótt að. „Það er auðvitað erfitt fyrir mig að meta hvað hefði hugsanlega getað gerst. En það var ofboðslega kalt þarna og fólk fær fljótt krampa í svona kulda.“

Kári segist ekki hafa þurft á sérstakri aðhlynningu að halda eftir björgunarafrekið. „Ég fór bara í heitt bað til að ná úr mér hrollinum. Ég er stálsleginn og í sæluvímu yfir að þetta skyldi fara svona vel. Þegar svona atburðir gerast er þetta besta hugsanlega útkoman.“

Kári Kárason slökkviliðsmaður og framkvæmdastjóri Vilkó.
Kári Kárason slökkviliðsmaður og framkvæmdastjóri Vilkó.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert