„Evrópusambandið er með beinum hætti að tengja saman makríldeiluna og umsókn okkar um aðild að sambandinu,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag. Hann vísaði þar til ákvörðunar ráðherraráðs ESB í gær um að flýta undirbúningi fyrir refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum vegna makríldeilunnar sem næðu ekki aðeins til innflutnings á makrílafurðum heldur einnig öðrum uppsjávartegundum og tæknibúnaði í sjávarútvegi.
Einar sagði þetta alvarlega hótanir og spurði Steingrím J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að því hvort umsókninni um inngöngu í ESB væri ekki sjálfhætt ef sambandið gripi til slíkra aðgerða. Vísaði hann einnig til þess að sjávarútvegsráðherra Írlands, Simon Coveney, hefði sagt við fjölmiðla að hann teldi erfitt fyrir ESB að hefja viðræður um sjávarútvegsmál í tengslum við umsóknina ef makríldeilan væri óleyst.
Steingrímur svaraði því ekki með beinum hætti hvaða áhrif slíkar aðgerðir gætu haft á umsóknina en sagði að það mætti eins snúa dæminu við. Það væri auðvitað erfitt fyrir Íslendinga að halda áfram viðræðum við ESB ef draga ætti inn í þær óskylt mál eins og makríldeiluna. Það væru ekki boðlegar aðstæður ef það væri gert.
Ráðherrann sagði að ekkert væri athugavert við það ef ESB setti löndunarbann á Íslendinga á makríl í höfnum sambandsins. Það væri réttur þeirra þar sem ekki hefði verið samið um makrílveiðarnar. Hins vegar væri það ólíðandi ef farið væri út í viðskiptaþvinganir vegna annarra vara sem ekki tengdust makrílnum. Slíkt væri brot meðal annars á EES-samningnum og yrði ekki liðið.