Refsiaðgerðum gegn Íslandi verði flýtt

Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands.
Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands. Ljósmynd/Anthony Patterson

Samþykkt var á fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins í gær að flýta vinnu við að koma á refsiaðgerðum gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar. Þetta hefur fréttavefur írska dagblaðsins Irish Times eftir sjávarútvegsráðherra Írlands, Simon Coveney, í dag.

Þá er haft eftir ráðherranum að deilan kunni að setja það í uppnám að hægt verði að hefja viðræður á milli Íslands og Evrópusambandsins um sjávarútvegskaflann vegna umsóknarinnar um inngöngu í sambandið. Segir hann útilokað að hefja raunhæfar viðræður um málaflokkinn án þess að deilan hafi fyrst verið leyst.

Coveneu vildi ekki ganga svo langt að segja að írsk stjórnvöld ætluðu að koma í veg fyrir að viðræður um sjávarútvegsmálin færu fram. „En þetta er mál sem að mínu mati gerir það mjög erfitt fyrir Evrópusambandið að opna sjávarútvegskaflann í góðri trú á meðan það er svona stórt mál óleyst.“

Fram kemur á fréttavef írska dagblaðsins Irish Examiner í dag að refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum muni fela í sér bann við innflutningi til Evrópusambandsins á uppsjávarfiski eins og makríl og afurðum framleiddum úr honum. Sömuleiðis á innflutningi á tækjum tengdum sjávarútvegi og skipum.

Þá segir að nú eigi aðeins Evrópuþingið eftir að samþykkja refsiaðgerðirnar og að tillaga þess efnis verði lögð fram af írska þingmanninum Pat „the Cope“ Gallagher sem einnig sé formaður sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins vegna umsóknarinnar um inngöngu í sambandið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert