„Á þetta er ekki unnt að fallast“

Lögmenn tveggja olíufélaganna, Eyvindur Sólnes og Hörður Felix Harðarson, og …
Lögmenn tveggja olíufélaganna, Eyvindur Sólnes og Hörður Felix Harðarson, og Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Samkeppniseftirlitsins. Morgunblaðið/Kristinn

„Á þetta er ekki unnt að fallast,“ segir Samkeppniseftirlitið um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun þar sem ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála um sektir á hendur olíufélögunum var felld úr gildi. Málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að Héraðsdómur bendi á að á að mál olíufélaganna hafi á tímabili verið til rannsóknar samtímis hjá samkeppnisyfirvöldum og hjá efnahagsbrotadeild lögreglunnar. „Það fyrirkomulag eitt og sér virðist, að mati héraðsdóms, hafa leitt til þess að félögin hafi ekki getað nýtt sér andmælarétt þar sem þau hafi átt það á hættu að upplýsingar sem þau veittu samkeppnisyfirvöldum kynnu að rata á borð lögregluyfirvalda og verið notaðar gegn þeim þar, eins og segir í forsendum dómsins. Orðrétt segir að „við þessar aðstæður var andmælaréttur stefnenda lítils virði“. Á þetta er ekki unnt að fallast.“

Samkeppniseftirlitið segir að olíufélögin hafi öll í raun og veru komið að umfangsmiklum andmælum, bæði skriflega og munnlega, fyrir samkeppnisráði og áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

Þá hafi ekki verið bent á hver þau sjónarmið voru sem félögin vildu koma að í málinu til viðbótar en gátu ekki vegna þess að mál þeirra var á tímabili til rannsóknar á tveimur stöðum.

Ennfremur hafi ekki verið útskýrt í forsendum héraðsdóms gegn hvaða lagareglum eða -sjónarmiðum það brýtur að mál fyrirtækja geti samtímis verið til meðferðar fyrir stjórnvaldi og lögreglu. Bent var á í málinu að sú staða ein og sér að mál sé samhliða til meðferðar á tveimur stöðum fer ekki gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu eða íslenskra laga og var því til stuðnings vísað til umfjöllunar helstu fræðimanna á þessu sviði hér á landi.

Þá segir Samkeppniseftirlitið að forsendur í máli á hendur forstjórum olíufélaganna sem héraðsdómur vísar í sé gjörólíkt.

„Með vísan til þessa telja samkeppnisyfirvöld nú sem fyrr að rannsókn á máli olíufélaganna og málsmeðferðin öll hafi verið vönduð, réttinda málsaðila hafi verið gætt í hvívetna og því er ekki unnt að fallast á forsendur héraðsdóms fyrir því að málsmeðferðin hafi verði haldin ágalla vegna andmælaréttar sem leiði til ógildingar hans. Af þeim sökum mun dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verða áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka