Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að svo miklir annmarkar væru á málsmeðferð í olíumálinu upphaflega að þeir leiði til þess að fella verði úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Í niðurstöðu dómsins segir að á seinni stigum frumathugunar samkeppnisyfirvalda hafi málið einnig verið til rannsóknar hjá lögreglu. „Þar sem um íþyngjandi ákvörðun var að ræða fyrir stefnendur, og ákvörðun sem varðaði verulega fjárhagslega hagsmuni, áttu stefnendur ótvíræðan rétt á að geta gætt hagsmuna sinna án þess að eiga það á hættu að upplýsingar þær er þeir veittu myndu rata á borð lögregluyfirvalda og vera notaðar gegn þeim þar. Við þessar aðstæður var andmælaréttur stefnenda lítils virði. Hér er því um að ræða verulegan annmarka á málsmeðferðinni sem leiðir til þess að felldur er úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.
Í niðurstöðu dómsins er vísað til dóms Hæstaréttar sem vísaði máli á hendur forstjórum olíufélaganna frá 16. mars 2007. Í þeim dómi segir að engin fyrirmæli hafi verið í lögum á þeim tíma um skil á milli heimilda lögreglu til rannsóknar samkvæmt þeim og rannsóknar samkeppnisyfirvalda. „Ekki var mælt fyrir um hvernig lögreglu bæri að haga rannsókn sinni væri mál til meðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum. Þá var því ósvarað hvort lögreglurannsókn mætti fara fram á sama tíma og rannsókn samkeppnisyfirvalda eða hvort gert væri ráð fyrir að hún fylgdi í kjölfarið. Jafnframt var ekki mælt fyrir um áhrif byrjaðrar lögreglurannsóknar á rannsókn samkeppnisyfirvalda og heimild þeirra til álagningar stjórnvaldssekta við slíkar aðstæður,“ segir í Hæstaréttardómnum frá 17. mars.
Þá hafi ekki verið kveðið á um hvort gögn eða upplýsingar, sem aflað hefði verið við rannsókn samkeppnisyfirvalda, yrðu afhent lögreglu eða hvort nota mætti slíkar upplýsingar, sem fyrirsvarsmenn félaga hefðu veitt, sem sönnunargögn í opinberu máli gegn þeim. „Af því sem að framan hefur verið rakið er ljóst að mikil óvissa ríkti um það hvort lögin gerðu ráð fyrir að bannreglu 10. gr. yrði framfylgt með tvennum hætti og hvort miðað væri við að rannsókn gæti bæði farið fram á stjórnsýslustigi og hjá lögreglu,“ segir ennfremur í Hæstaréttardómnum.
Þá vísar héraðsdómur til þess að í kjölfar dómsins hafi verið gerðar breytingar á samkeppnislögum, þar sem refsiábyrgð fyrirtækja var afnumin og þannig komið í veg fyrir að fyrirtæki væru til rannsóknar á tveimur stöðum. Átti því mál fyrirtækjanna einungis undir samkeppnisyfirvöld. Ef einstaklingar voru undir lögreglurannsókn var það eftir kæru frá samkeppnisyfirvöldum og var óheimilt að nota gögn frá þeim í þeirri lögreglurannsókn. Var þetta gert til að girða fyrir að sama staða kæmi upp aftur og var í olíumálinu.
Að því sögðu skal íslenska ríkið endurgreiða Keri hf., 495.000.000 króna, Skeljungi hf. 450.000.000 króna og Olíuverslun Íslands 560.000.000 króna.