Mennirnir tveir sem sakfelldir voru fyrir að taka þátt í skotárás í Bryggjuhverfinu í nóvember síðastliðnum voru sýknaðir af aðalkröfu ákæruvaldsins, að um tilraun til manndráps væri að ræða. Hins vegar voru þeir sakfelldir fyrir hættubrot og hlutdeild í hættubroti.
Mennirnir Kristján Halldór Jensson og Tómas Pálsson Eyþórsson voru ákærðir fyrir tilraun til manndráps með því að hafa að kvöldi föstudagsins 18. nóvember 2011 farið saman á bifreið á bifreiðastæði við bifreiðasöluna Höfðahöllina að Tangarbryggju 14 í Reykjavík, þar sem þeir höfðu mælt sér mót við mann vegna ágreinings um fjárskuld.
Í ákæru segir að Kristján Halldór hafi skotið úr haglabyssu einu skoti í áttina að bíl mannsins, en ekki hæft. Þegar svo maðurinn ók á brott veittu mennirnir honum eftirför og skaut Kristján Halldór öðru skoti út um glugga bifreiðarinnar. Við skotið brotnaði afturrúða bíls fórnarlambsins og miklar skemmdir urðu á bifreiðinni.
Kristján var dæmdur í fjögurra ára fangelsi og Tómas í átján mánaða fangelsi.
Umrætt ákvæði almennra hegningarlaga, þ.e. sem varðar hættubrot, hljómar svo: „Fangelsi allt að 4 árum skal sá sæta, sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska.“
Af þessu má sjá, að Héraðsdómur Reykjavíkur fullnýtti refsirammann sem gefinn er fyrir hættubrot. Enda segir um brot Kristjáns, að háttsemi hans, að skjóta í tvígang að bifreiðinni hafi verið sérlega ófyrirleitin. „Hlaut hann að sjá það fyrir, að með því stofnaði hann lífi og heilsu mannanna tveggja sem í bifreiðinni voru í augljósan háska.“
Dómurinn taldi hins vegar ósannað að fjarlægðin sem Kristján skaut úr hafi verið sú sama og í ákæru greindi, og að færið hefði getað verið lengra. Jafnframt þótti ósannað að högl hafi borist inn í bifreiðina. „Samkvæmt framansögðu telst ekki nægilega sýnt fram á að [Kristján] hafi beitt skotvopninu með þeim hætti að mennirnir sem í bifreiðinni voru hefðu getað beðið bana af, eða að ásetningur hafi staðið til þess.“
Hvað varðar átján mánaða fangelsi yfir Tómasi leit dómurinn til þess að hann og Kristján sammæltust um að taka byssuna með á fundinn. Þá hafi Tómas átt frumkvæði að fundinum. Hann hafi veitt bifreið fórnarlambsins eftirför og var aksturslagið með þeim hætti að hann hafi verið að reyna að komast í skotfæri við hana.
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að Kristján á að baki nokkurn sakarferil, og með broti sínu rauf hann skilorð. Atlagan þótti ófyrirleitin og stórhættuleg og því hafi fjögurra ára fangelsi þótt hæfileg refsing.
Fyrir hlutdeild í broti Kristjáns hlaut Tómas átján mánaða fangelsi.