Hefur játað aðild að ráni

Frank Michelsen úrsmiður með úrin sem tekin voru úr versluninni …
Frank Michelsen úrsmiður með úrin sem tekin voru úr versluninni í vopnuðu ráni. mbl.is/Júlíus

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að pólskur karlmaður sem grunaður er um að hafa tekið þátt í úraráni í verslun Michelsen skuli sæta einangrun á meðan hann situr í gæsluvarðhaldi. Manninum er gert að sæta gæsluvarðhaldi til 18. apríl og sæta einangrun allan tímann en hann hefur játað aðild að ráninu.

Í greinargerð ákæruvalds kemur fram að maðurinn, sem er fæddur árið 1976, sé grunaður um aðild að skipulagningu og framkvæmd ráns, sem framið hafi verið þann 17. október 2011 í úra- og skartgripaverslun Michelsen, Laugavegi 15 í Reykjavík, ásamt þremur samverkamönnum. Eru þeir taldir hafa komið hingað til lands í þeim eina tilgangi að fremja ránið.

Maðurinn er grunaður, ásamt tveimur samverkamönnum, um að hafa ráðist inn í verslunina, með andlit sín hulin, og hótað og ógnað starfsfólki verslunarinnar með því að beina að þeim eftirlíkingum af skotvopnum og með því að skipa því að leggjast á gólfið, og að hafa haft á brott með sér 49 armbandsúr, samtals að verðmæti yfir 50.000.000 króna. Þeir séu taldir hafa farið af vettvangi á flóttabifreiðum, sem þeir séu grunaðir um að hafa stolið. Ránsfengurinn hafi fundist vandlega falinn í bifreið samverkamanns sem hugðist koma honum þannig földum af landi brott með Norrænu. Sá maður var nýverið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir aðild að málinu.

Maðurinn sem er í haldi komst af landi brott með flugi til Kaupmannahafnar daginn eftir ránið ásamt tveimur samverkamönnum sínum. Við rannsókn lögreglu á málinu hafi fallið grunur á manninn og samverkamenn hans. Héraðsdómur Reykjavíkur gaf út handtökuskipun á hendur manninum þann 25. október 2011. Í kjölfarið var hann eftirlýstur í gagnagrunni Schengen-upplýsingakerfisins (SIS). Lögreglan í Póllandi hafði afskipti af manninum í nóvember sl. en eftirlýsingunni og handtökuskipuninni hafi ekki verið framfylgt frekar af hálfu pólskra yfirvalda þar sem fyrir hafi legið að maðurinn yrði ekki framseldur hingað til lands á grundvelli Evrópuráðssamningsins um framsal frá 1957.

Þann 26. febrúar sl. barst Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra skeyti frá yfirvöldum í Sviss þess efnis að umræddur maður væri þar í haldi á grundvelli eftirlýsingarinnar í SIS.

Nokkrum dögum síðar hafi Alþjóðadeildinni borist skeyti þess efnis að maðurinn samþykkti framsal til Íslands. Framsalið hafi farið fram þann 13. mars sl. og við komuna til landsins var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í héraðsdómi.

Segir þann dæmda höfuðpaur í ráninu

Maðurinn hefur játað aðild sína að ráninu við yfirheyrslur lögreglu. Framburður hans um skipulagningu, fjármögnun og aðdraganda ránsins sé hins vegar á töluvert annan veg en mannsins sem nýverið var dæmdur í fimm ára fangelsi.

Sá sem nú situr í gæsluvarðhaldi segir að hinn dæmdi hafi verið aðalmaðurinn í verkinu að nánast öllu leyti en sá bar fyrir dómi að hann hefði verið fenginn til verksins af hinum þremur. 

Fyrir liggi að annar samverkamaður mannsins er í haldi lögreglu í Sviss vegna sakamálarannsóknar og ekki verði unnt að yfirheyra hann fyrr en hann verði framseldur eftir u.þ.b. mánuð. Sá fjórði er talinn vera í Póllandi og er unnið að því að tekin verði  skýrsla af honum í Póllandi og fyrir milligöngu Alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra sé nú reynt að staðsetja hann þar.

Talin sé hætta á að gangi maðurinn frjáls ferða sinna kunni hann að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á aðra samseka. Með vísan til þessa sé einnig talið nauðsynlegt að hann sæti einangrun á meðan á gæsluvarðahaldi stendur.  

Þá sé talin hætta á að hann muni reyna að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn sem bíði hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert