Björn sakar RÚV um áróður

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason. Kristinn Ingvarsson

Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, segir framleiðendur sjónvarpsþáttarins Landans í Ríkissjónvarpinu hafa bitið á agnið og endurbirt áróður um ESB í þætti kvöldsins í sjónvarpinu.

Orðrétt skrifar Björn á vef Evrópuvaktarinnar:

„Evrópustofa er líklega farin að láta að sér kveða gagnvart RÚV og stjórnendur Landans hafa bitið á agnið eins og sást í þættinum að kvöldi sunnudags 25. mars þegar ESB-áróðri sem braut algjörlega í bága við almennt efni þessa vinsæla þáttar var troðið inn í hann. Er með ólíkindum að stjórnendur RÚV og ritstjórn Landans taki í mál að flytja slíkt efni í þættinum.

Það ætti að gera kröfu til þess að þættir sem þessir séu merktir kostunaraðila svo að áhorfendur átti sig á því hvers kyns er.

Furðulegt er að fylgjast með viðbrögðum við gagnrýni af þessu tagi þegar látið er eins og áróður fyrir aðild Íslands að ESB sé sambærilegur við kynningarstarf vegna alþjóðasamtaka þar sem Íslendingar eru þegar virkir þátttakendur.

Markmið ESB-áróðursins er að búa í haginn fyrir fulltrúa ESB í aðildarviðræðunum, létta þeim róðurinn við að ná samkomulagi í samræmi við ákvæði ESB-löggjafarinnar.

Tilgangurinn er einfaldlega sá að slæva andstöðu Íslendinga og kynningin í Landanum snerist um byggðastyrki. Þeir hafa löngum verið nefndir sem agn af ESB-aðildarsinnum.“

Hægt er að horfa á umræddan þátt hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert