„Þetta er mál sem ég og nokkrir aðrir leggja fram um formlega afsökunarbeiðni til þeirra iðkenda Falun Gong sem var meinað að iðka tjáningarfrelsi sitt á Íslandi og meinuð landganga,“ segir Guðmundur Steingrímsson alþingismaður um þingsályktunartillögu sem hann er flutningsmaður að og lögð hefur verið fram á Alþingi.
Vísar Guðmundur þar til þess þegar komið var í veg fyrir að iðkendur Falun Gong gætu mótmælt hér á landi á meðan á opinberri heimsókn forseta Kína stóð sumarið 2002. Var sumum þeirra meinað að stíga upp í flugvélar á vegum Icelandair á leið til landsins en öðrum neitað um landvistarleyfi og voru þeir meðal annars hýstir í Njarðvíkurskóla. Margir tugir Falun Gong-iðkenda komu til landsins í þeim tilgangi að mótmæla.
„Þetta er lagt fram, ekki síst bara út af fordæmisgildinu. Það er að afsökunarbeiðnin fari fram formlega með framtíðina í huga. Það eiga eftir að koma aðrar heimsóknir frá Kína eða öðrum löndum og þá er mjög mikilvægt að löggjafinn sé búinn að taka mjög skýra afstöðu, að þetta náttúrulega gengur ekki,“ segir Guðmundur.
Hann segir síðan óljóst hvort umræddir einstaklingar hafi fengið greiddar bætur vegna kostnaðar sína. „Það fer tvennum sögum af því hvort þeir hafi fengið bætur og það er náttúrlega kurteisi að greiða þeim bætur fyrir þetta.“