Á annað hundrað manns mættu á kynningarfund um skipulag Nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, en hann var haldinn í Ráðhúsinu síðdegis í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsspítalanum í kvöld.
Þar segir að farið hafi verið yfir skipulag vegna stækkunar spítalans og að fundurinn hafi verið liður í lögbundnu kynningarferli á vegum Reykjavíkurborgar.
Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur sagði á fundinum að skipulagið væri orðið gott og að mikil vinna hefði verið lögð í það.
Hann benti á að uppbygging spítalans kæmi „á tíma þegar við þurfum á framkvæmdum að halda“. Þá sagði hann fyrirhugaða uppbyggingu marka nýja tíma fyrir Reykjavík.
„Hjálmar Sveinsson, varaformaður skipulagsráðs, benti á að hagkvæmniúttekt vegna spítalauppbyggingarinnar hefði sýnt að með henni myndu sparast 2,6 milljarðar króna í rekstri spítalans árlega, eða sjö milljónir króna á dag. Það væri ábyrgðarlaust að taka ekki tillit til sterkra hagkvæmniraka,“ segir í tilkynningu spítalans.
„Hjálmar benti á að þverpólitísk eining ríkti um staðsetningu spítalans við Hringbraut, enda væru fyrir henni tvær mikilvægar forsendur. Áfram væri hægt að nýta sjúkrahúsbyggingar á staðnum og að Hringbrautarlóðin lægi betur en nokkur önnur hugsanleg lóð við umferð og samgöngumiðstöðvum í borginni.“
Að loknum framsögum voru pallborðsumræður og skoðanaskipti.