Jón Magnússon, fyrrverandi stórkaupmaður, lést þriðjudaginn 27. mars síðastliðinn á Landspítalanum við Hringbraut, 89 ára að aldri.
Jón fæddist í Reykjavík 18. júní 1922. Foreldrar hans voru Magnús Sigurðsson bankastjóri og Ástríður Stephensen Magnúsdóttir.
Jón stundaði nám við Verzlunarskólann í Reykjavík. Eftir það hóf hann störf hjá rafverktakafyrirtækinu Rönning hf. í rúma tvo áratugi en stofnaði síðan 1961 ásamt mági sínum fyrirtækið Johan Rönning hf., umboðs- og heildverslun með rafbúnað. Jón byggði upp heildsöluna frá grunni og rak fyrirtækið í rúma fjóra áratugi.
Jón var í hópi 20 félagsmanna Félags íslenskra stórkaupmanna sem 1971 stofnuðu Heild hf., félag um byggingu nýrrar miðstöðvar heildverslana í Sundaborg í Reykjavík, og ritaði hann jafnframt Sögu Sundaborgar. Hann var formaður FÍS 1975 til 1979. Hann var stofnandi og stjórnarformaður Silfurlax hf. 1984. Jón sat í stjórn Verslunarráðs Íslands og í stjórn Íslenskrar verslunar og var jafnframt formaður Félags raftækjaheildsala. Jón var kjörinn heiðursfélagi Félag íslenskra stórkaupmanna.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Dóra Björg Guðmundsdóttir. Þau eiga þrjú uppkomin börn.
Jón verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni næstkomandi miðvikudag og hefst athöfnin kl. 13.