Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Næstbesta flokksins í Kópavogi hafa lagt fram fyrirspurn til bæjarráðs um útgáfu starfsleyfis fyrir skemmtistaðinn Goldfinger. Telja þau að leyfið hafi verið veitt án umfjöllunar kjörinna fulltrúa.
Óskað er eftir upplýsingum og rökstuðningi vegna ákvörðunar Guðrúnar Pálsdóttur, fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs, að kalla ekki saman umsagnaraðila vegna starfsleyfis til Goldfinger þrátt fyrir að bæjarráð hafi samþykkt einróma á fundi sínum 12. september 2010 að slíkt skyldi gert. Taka ber fram að umræddir flokkar réðu Guðrúnu sem bæjarstjóra, og málið afgreitt í tíð þess meirihluta.
Bæjarráð samþykkti þá að fela bæjarstjóra að kalla saman til fundar lögbundna umsagnaraðila að málinu og að umræddir fulltrúar sveitarstjórnar, heilbrigðiseftirlits, slökkviliðs, vinnueftirlits, byggingarfulltrúa og lögreglu vinni saman umsögn um málið.
Ástæður þess að ákveðið var að kalla saman umsagnaraðila voru viðtöl við Ásgeir Davíðsson, eiganda Goldfinger, í fjölmiðlum, lögregluskýrsla og vefur skemmtistaðarins þar sem konur sýna nekt sína og fram kemur að drykkir séu seldir á allt að 190 þúsund krónur.
Fulltrúarnir telja ámælisvert að samþykkt bæjarráðs hafi verið virt að vettugi og leyfi veitt án frekari umfjöllunar kjörinna fulltrúa. Skoða átti starfsemi staðarins frekar til að ganga úr skugga um að ekki sé verið að gera út á nekt starfsmanna, og farið sé að lögum.