Viljayfirlýsing um Perluna úr gildi

Hæstbjóðendur í Perluna hafa farið fram á framlengingu á viljayfirlýsingu vegna kaupa á Perlunni. Með viljayfirlýsingu sem stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skrifaði undir í desember var hópnum gefinn frestur til 31. mars til að falla frá fyrirvörum í tilboði sínu, sem hljóðaði upp á 1.688,8 milljónir króna.

Sex tilboð bárust í Perluna þegar hún var auglýst til sölu í haust. Hæsta tilboðið átti hópur innlendra fjárfesta sem starfað hafa á sviði ferðaþjónustu og húsbygginga. Hópurinn bauð 1.688,8 milljónir kr. í Perluna með fyrirvörum um að treysta forsendur hagkvæmnisathugunar sem liggur til grundvallar tilboðinu.

Viðræður ekki hafnar við aðra

Viljayfirlýsingin féll úr gildi um helgina þar sem hópurinn hefur ekki aflétt fyrirvörum í tilboðinu. Að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa OR, fór hópurinn hins vegar fram á eins mánaðar framlengingu á viljayfirlýsingunni, í ljósi þess að Reykjavíkurborg er enn með erindi þeirra til meðferðar. Eiríkur segir að málið verði rætt á næsta stjórnarfundi OR, hinn 25. apríl.

Viljayfirlýsingin fól m.a. í sér að ekki yrði ráðist í viðræður við neina aðra bjóðendur á meðan. Það er nú fallið úr gildi en Eiríkur segir þó að ekki séu hafnar formlegar viðræður við neina aðra en hæstbjóðendur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert