Maðurinn sem var stunginn margsinnis með hnífi á lögmannsstofu í byrjun síðasta mánaðar er á batavegi. „Hann mun trúlega útskrifast fljótlega frá okkur,“ segir læknir á gjörgæsludeild Landspítala Íslands, en þar hefur maðurinn legið frá því hann varð fyrir árásinni.
„Hann er að verða það góður að hann fer á venjulega deild innan tíðar,“ segir læknirinn.
Maðurinn var um tíma í lífshættu, hann gekkst undir umfangsmikla aðgerð og var haldið í öndunarvél í nokkrar vikur.
Ráðist var á manninn á lögmannsstofunni Lagastoð í Lágmúla 5. mars síðastliðinn. Var annar starfsmaður stunginn í lærið þegar hann reyndi að skakka leikinn.
Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum og úrskurðaður í gæsluvarðhald.